138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

raforka til garðyrkjubænda.

148. mál
[15:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir annarra til hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu efni og ekki virðist vera vanþörf á vegna þess að hér sjáum við að það hefur akkúrat ekkert gerst í þessu máli á þeim níu mánuðum síðan starfshópurinn var skipaður. Ég trúi ekki, miðað við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið af þeim flokkum sem nú skipa ríkisstjórn í gegnum tíðina, að það þurfi að taka þennan óskaplega tíma að komast að einhverri lendingu með þetta.

Það er rétt sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sagði áðan að breytingar á skattalögum gera ekkert annað en að íþyngja þessari grein, þvert á það sem gefið var fyrirheit um, og aukning á niðurgreiðslu til hennar skýrist einfaldlega af því að verið er að bæta upp þær skattahækkanir sem er verið að setja annars staðar á. Það hefur því ekkert gerst í þessum málum og við þurfum að fara að sjá einhvern árangur, herra forseti, af þeirri stefnumótun sem boðuð er.