140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hlusta á þessa umræðu. Ég man nú samt ekki eftir því að hafa hlustað áður á hv. þingmann fara með æviminningar undir þessum lið en það er kannski eitthvað sem er komið til að vera. Ég held að það dugi ekkert að setja í lög eða reglur að hv. þingmenn eigi að vera duglegir. Ég veit ekki betur en að núna sé til dæmis mikið verið að skammast í einum hv. þingmanni fyrir að vera of duglegur við að koma upplýsingum til almennings. Ég held að við ættum að fara varlega í að skammast yfir því.

Hér kom hv. þm. Magnús Orri Schram og skammaði framsóknarmenn en var að meina VG. (Gripið fram í: Var það?) Ég held að það sé bara miklu nær að þegar ríkisstjórnarátök eiga í hlut að menn tali um hlutina eins og þeir eru. Sá aðili sem hefur talað hvað mest fyrir krónunni er hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, ég man ekki alveg hvaða ráðherra hann er núna, og hann er væntanlega húðskammaður hér af hv. þingmanni Samfylkingarinnar og ég skil ekki af hverju þeir eru að blanda Framsóknarflokknum eitthvað sérstaklega inn í þetta. (Gripið fram í.)

Alvara málsins er sú, virðulegir forseti, að við erum ekki hér að ræða um það hvernig við ætlum að aflétta gjaldeyrishöftunum. Ég vek athygli á því að þessi ríkisstjórn hefur hvað eftir annað komið fram og sagt að hún sé að aflétta gjaldeyrishöftunum. Hvar er sú stefna? Halda menn því fram í fullri alvöru að við séum að því? Hér er fullkomið stjórnleysi hvað þetta varðar, það eru nokkrir mánuðir síðan við framlengdum gjaldeyrishöftin og þá er alveg ljóst að sú staða var uppi sem menn brugðust við í óðagoti um miðja nótt hérna fyrir tveim dögum. Allir sammála um að við þurfum að koma okkur út úr þessum gjaldeyrishöftum, hvar er stefna ríkisstjórnar í þessu máli? Eru menn enn þá að halda því fram að þessar yfirlýsingar, sem augljóslega eru innihaldslausar — að það sé eitthvað sem sé stefna? (Forseti hringir.) Hættið að láta ykkur dreyma um þessa evru og farið að tala um hlutina eins og þeir eru, sem er fullkomið stjórnleysi í efnahagsmálum landsins undir forustu þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Engin framtíðarsýn hjá mér.) (Gripið fram í: Segja af sér …)