143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Góðar almenningssamgöngur eru einn af mikilvægum þáttum góðra búsetuskilyrða. Í samgönguáætlun er lögð áhersla á eflingu almenningssamgangna og rætt um öryggi í samgöngum, umhverfislega sjálfbærni og jákvæða byggðaþróun. Með lögum var Vegagerðinni veitt heimild til að veita sveitarfélögum, byggðasamlögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga einkaleyfi til að skipuleggja og sjá um almenningssamgöngur. Sveitarfélögin tóku því verkefni fagnandi enda mikið hagsmunamál íbúa að bæta almenningssamgöngur og tengingar á milli sveitarfélaga.

Á Suðurnesjum hefur til dæmis verið sett upp almenningssamgöngukerfi sem tengir sveitarfélögin þar saman við höfuðborgarsvæðið. Hugmyndin var sú að arðbær leið á milli flugstöðvarinnar og Reykjavíkur greiddi fyrir bættar samgöngur á hinum leiðunum sem ekki bera sig. Ferðir milli flugstöðvarinnar og Reykjavíkur uppfylla öll skilyrði sem notuð eru til skilgreiningar á almannaþjónustu og hið sama á við um aðrar leiðir sem ferðamenn nýta. Ætla má að meiri hluti farþega á leiðinni Reykjavík–Landeyjahöfn sé aðrir en íbúar Vestmannaeyja. Það breytir því ekki að leiðin telst til almenningssamgangna.

Nú hafa stjórnvöld ákveðið að taka legginn Leifsstöð–Reykjavík út úr almenningssamgöngukerfinu á Suðurnesjum. Ég vil spyrja hv. formann umhverfis- og samgöngunefndar hvort hann telji að það að kippa leið sem ber sig út úr heildstæðu almenningssamgöngukerfi landshluta sé í anda samgönguáætlunar. Telur hv. formaður að byggja megi upp öflugt, sjálfbært almenningssamgöngukerfi ef ekki má nýta ávinning af einni leið til að bæta upp aðra? Hvernig sér hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar fyrir sér að byggja megi góðar almenningssamgöngur á Suðurnesjum í þeirri stöðu sem stjórnvöld hafa nú sett málið í?