143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nota tækifærið undir þessum lið og minna hv. þingmenn á að fyrir nákvæmlega fimm árum var samþykkt hér íslensk málstefna, sú fyrsta sem Alþingi Íslendinga samþykkti og laut að því hvernig ætti að efla íslenska tungu til framtíðar. Meginmarkmið þessarar málstefnu var að íslenska yrði notuð á öllum sviðum samfélagsins, hvort sem er í skólum, fjölmiðlum, atvinnulífi, vísindum, tölvuheilum eða enn annars staðar.

Í framhaldi af samþykkt málstefnunnar samþykkti Alþingi svo 2011 lög, þau fyrstu sinnar tegundar líka, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Það var liður í því að framfylgja íslenskri málstefnu. Því má segja að á undanförnum fimm árum hafi íslensk tunga talsvert verið til umræðu hér í þessum sal sem ég tel mjög mikilvægt. Það er líka hluti af verksviði okkar sem störfum í stjórnmálum hvernig við getum eflt tungumálið sem er óneitanlega einn stærsti fjársjóður sem við sem búum á Íslandi geymum. Þetta er hápólitískt mál víða um heim. Ef við skoðum stöðu tungumála með jafn fáa málnotendur og íslenska er í raun mjög merkilegt hve sterk staða íslenskunnar er, með aðeins rúmlega 300 þús. málnotendur. Það er örugglega óvanalegt að hv. þingmenn séu spurðir erlendis hvaða tungumál sé talað á Íslandi og menn furði sig á því að það sé sjálfstætt tungumál.

Mig langar að nota tækifærið hér og nefna það að ég hef nefnt það við hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar, þingmanninn Unni Brá Konráðsdóttur, að sú nefnd taki núna stöðu á því hvernig hefur gengið að framfylgja íslenskri málstefnu. Mig langar líka að nefna það við hæstv. forseta að forsætisnefnd hafi forgöngu um það að staða íslenskunnar verði rædd hér með reglubundnum hætti. Ég nefni í því samhengi tillögu sem hv. þm. Mörður Árnason var hér með á síðasta kjörtímabili um að á degi íslenskrar tungu yrði ávallt sérstök umræða eða skýrslugjöf um stöðu íslenskrar tungu.

Ég óska eftir því við virðulegan forseta að hann taki þetta mál upp í forsætisnefnd og geri þetta að reglulegum viðburði.