143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð. Mig langar að spyrja hana, af því að hún hefur komið ötullega að neytendamálum í gegnum tíðina, hvert sjónarmið hennar er eða hvernig sýn hennar út frá neytendahliðinni er gagnvart aðild að Evrópusambandinu.

Augljós kostur fyrir neytendur og heimilin í landinu er auðvitað upptaka evru þar sem gæti fylgt meiri stöðugleiki í verðlagi. Einnig að við gætum losað okkur við verðtrygginguna að fullu ef við tækjum upp evru, ekki bara farið í að banna einstaka lánaflokka eins og núverandi ríkisstjórn virðist hafa hugmyndir um.

Eru einhver önnur sjónarmið sem við gætum haft í huga varðandi neytendur á Íslandi, og þá kannski líka hvað varðar EES-samninginn? Koma með honum líka réttarbætur fyrir neytendur hér á landi?