145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:13]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir fyrirspurnirnar.

Það er eitt varðandi réttindin sem ég komst að þegar ég fór að vinna í þessum málum fyrir ættingja mína og það er að ekkert gerist sjálfkrafa í kerfinu. Ef þú sækir ekki um þá færðu ekki það sem þú átt að fá út úr kerfinu. Þú þarft alltaf að sækja um allt. Það gerist ekkert sjálfkrafa. Þetta kom mér á óvart því að ég hélt að kerfið væri þannig uppbyggt að eldri borgarar þyrftu ekki að fara inn á fullt af einhverjum síðum til að leita að einhverjum dálkum og eyðublöðum til að fylla út. En það er þannig. Það þarf að gera það svoleiðis. Þetta kom mér verulega á óvart.

Varðandi öldungaráðin held ég að þau séu til góðs. Ég er alveg sannfærður um að þau gera gott gagn þar sem þau hafa verið sett á fót. Ég held hins vegar að umboðsmaður sé skilvirkara form. Ég held um slík öldungaráð að hlutverk þeirra yrðu kannski mismunandi milli sveitarfélaga, þau yrðu misjafnlega skilvirk í vinnu sinni, það tæki kannski á sumum stöðum mjög langan tíma að fá niðurstöðu í mál o.s.frv. Ég hef ekkert á móti þeim. Ég held að þau aðstoði eldri borgara talsvert. En ég held að umboðsmaður sé mun skilvirkara fyrirkomulag. Það yrði væntanlega lögfræðimenntaður aðili með eitthvað af aðstoðarfólki. Ég er ekki að tala um stóra stofnun heldur litla stofnun sem svarar fyrirspurnum og bendir á ýmislegt í réttarmálum fyrir aldraða sem má bæta.