149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

ákvörðun um áframhaldandi hvalveiðar.

[10:52]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningum mínum um hvort haft hefði verið samráð við aðra ráðherra, en ákvörðunin hefur svo greinilega áhrif á málaflokka þeirra líka. Svo má nefna að við gerð skýrslunnar og við ákvörðunartökuna virðist einungis hafa verið haft samráð við mjög þröngan hóp hagsmunaaðila. Ég spyr því: Hvers vegna? Af hverju var ekki farið víðar? Af hverju var ekki sótt dómgreind til annarra ráðherra, eins og t.d. ráðherra umhverfismála?

Í könnun MMR í maí 2018 kom fram að aðeins 34% landsmanna vildu að Íslendingar hæfu hvalveiðar á ný. Fólk virðist ekki gríðarlega spennt fyrir þeim, enda er nánast enginn markaður fyrir hvalaafurðir. Miðað við að efnahagslegar forsendur eru skilyrði fyrir sjálfbærri nýtingu, og hæstv. ráðherra talaði um mikilvægi í sjálfbærri nýtingu, hvernig er þá hægt að réttlæta hvalveiðar nema um sportveiðar sé að ræða?

Við vitum að tekjur af hvalaskoðun eru langtum meiri en tekjur af hvalveiðum. Er eðlilegt að hagsmunum ferðaþjónustunnar og náttúrunnar sé fórnað á altari sportveiða? (Forseti hringir.)

Forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Í þágu hverra vinnur hann? Ég bið hæstv. ráðherra vinsamlegast að svara spurningum mínum.