149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

Seðlabankinn.

[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Greinargerðin sem hv. þingmaður vísar í var unnin af bankaráði Seðlabanka Íslands að minni ósk og henni var skilað og hún birt á vef forsætisráðuneytisins á þriðjudaginn. Við erum enn, þ.e. lögfræðingar mínir í forsætisráðuneytinu og ég, að fara yfir efnisatriði greinargerðarinnar. Það kann að vera að nauðsynlegt sé að óska eftir frekari skýringum um ýmis þau atriði sem þar koma fram, þannig að sú vinna stendur yfir. Mjög mikilvægt er að farið verði mjög nákvæmlega yfir alla stjórnsýslu Seðlabankans í þeim málum. Ef við horfum á stóru línurnar er niðurstaða greinargerðarinnar ótvíræð, að mikilvægt sé að Seðlabankinn endurupptaki öll þau mál sem sambærileg eru sem vörðuðu lög um gjaldeyriseftirlit, ekki bara það mál sem kennt hefur verið við Samherja heldur önnur sambærileg mál. Sú niðurstaða er ótvíræð af hálfu bankaráðsins.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega bókun tveggja bankaráðsmanna. Af því tilefni vil ég segja að ég tel það algjörlega ótvírætt þar sem Seðlabanki Íslands heyrir undir forsætisráðuneytið, þó að lög um gjaldeyriseftirlit heyri undir fjármála- og efnahagsráðuneyti og þó að bankaráðið sé kosið af Alþingi er mjög skýrt í lögum um Seðlabanka Íslands að bankaráðið hefur það hlutverk að hafa eftirlit með því að lögum sé fylgt af hálfu bankans og ég lít svo á að heimildir forsætisráðherra til að kalla eftir þeim upplýsingum sem ég óskaði eftir í erindi mínu til bankaráðsins séu algjörlega ótvíræðar. Það hef ég sömuleiðis farið yfir eftir að greinargerðin barst og hef í engu breytt þeirri skoðun minni.