149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

Seðlabankinn.

[11:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir þessi svör, en hún svaraði ekki síðari spurningu minni. Ég heyri á hæstv. forsætisráðherra að hún lítur þetta mál alvarlegum augum eins og allir gera vegna þess að auðvitað á Seðlabanki Íslands og athafnir hans að vera hafnar yfir allan vafa á hverjum tíma. Seðlabanki Íslands hlýtur að reyna að búa svo um hnútana og ganga þannig fram að hann njóti óskoraðs trausts, sem hann gerir væntanlega ekki núna eins og málum er komið. Því spyr ég forsætisráðherra aftur: Telur hún að seðlabankastjóri og helstu samstarfsmenn hans eigi að axla ábyrgð vegna þess sem fram er komið í þessu máli? Og nýtur seðlabankastjóri trausts hæstv. forsætisráðherra?

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að við fáum þetta á hreint vegna þess að ég lít svo á að þessi plögg, sem ég hef bæði séð og þau ítargögn sem forsætisráðherra hefur kallað eftir og birt, (Forseti hringir.) séu með þeim hætti að það verði ekki undan því vikist að eitthvað róttækt verði gert í þessum málum.