149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

Seðlabankinn.

[11:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég lít þetta mál alvarlegum augum. Ég tel að þarna hafi verið gerð mistök í starfsemi og stjórnsýslu Seðlabankans. Ég tel að greinargerðin sýni það með afgerandi hætti. En mistök í stjórnsýslu stofnana gera það ekki að verkum að almennt traust mitt á Seðlabankanum sé ekki enn fyrir hendi. Það er enn fyrir hendi, almennt traust mitt á Seðlabankanum. Hins vegar er mjög mikilvægt, eins og fram kom í mínu fyrra svari við spurningu hv. þingmanns, að við köfum ofan í þetta mál til fulls. Því hef ég sett af stað skoðun á því hvaða viðbótarupplýsingar og gögn þurfa að liggja fyrir til að við komumst algerlega til botns í því. Það liggur líka fyrir, af því að hv. þingmaður kallar eftir aðgerðum, að bankaráð lýsir þeirri skoðun eða afstöðu að endurupptaka þurfi öll þessi mál.

Síðan vil ég minna hv. þingmann á að yfir stendur heildarendurskoðun á lögum um Seðlabankann. Það liggur fyrir að þar þurfum við líka að taka tillit til þess sem fram kemur í greinargerðinni og tryggja að nægjanlega vel sé búið um (Forseti hringir.) þennan þátt í hlutverki Seðlabankans í lögum til að svona mistök endurtaki sig ekki.