149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langaði að segja nokkur orð um þessa þingsályktunartillögu sem við erum að ræða, um framtíð Reykjavíkurflugvallar, svo vitnað sé í fyrirsögn þingsályktunartillögunnar. Hið rétta er kannski frekar að tillagan snýst um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar, ekki um það hvort flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu verði eða verði ekki. Hann verður. Um það ríkir eðlilega sátt, ekki síst með mikilvæga hagsmuni landsbyggðarinnar í huga.

Hvað varðar spurninguna sem lögð er fram í tillögunni geri ég enga athugasemd við hana. Ég myndi svara og hef í sjálfu sér oft svarað því að ég tel mikilvægt að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni þar til samstaða næst um annan kost, aftur að teknu tilliti til þessara miklu hagsmuna landsbyggðarinnar. Staðreyndin er bara sú að þetta liggur fyrir og hefur gert í töluverðan tíma. Það er í gildi samkomulag milli fulltrúa ríkisstjórnarinnar, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group, ef ég man rétt, um innanlandsflug. Þar kemur fram að aðilar eru sammála um að fyrsti kostur fyrir innanlandsflug sé á höfuðborgarsvæðinu og hann verði starfræktur næstu ár.

Það er enginn, mér vitandi, í umræðunni að tala um að innanlandsflug til og frá höfuðborgarsvæðinu verði lagt niður. Það er ekki verið að tala um að loka Reykjavíkurflugvelli nema menn hafi einhverra hagsmuna að gæta og vilji slá ryki í augu almennings. Það er verið að tala um að færa flugvöllinn á þessu svæði. Staðsetningin þurfi að taka breytingum eins og margt annað þegar kemur að þróun samfélaga. Mér þykir, og ég verð að segja það, dapurlegt að sjá okkar ágætu landsbyggðarþingmenn, ekki síst fulltrúa ríkisstjórnarinnar í þessum hópi, hafa svo lítinn skilning á málefnum höfuðborgarinnar sem raun ber vitni. Við getum ekki verið að öskra okkur hás yfir húsnæðisskorti, umferðarþunga og skorti á skilvirkum almenningssamgöngum en ætla á sama tíma að standa í vegi fyrir því að landsvæði í hjarta borgarinnar sé nýtt með ábyrgum hætti til að bregðast við þessum vanda og að á sama tíma sé fundin lausn og samstaða fengin um nýja staðsetningu í flugsamgöngum til höfuðborgarsvæðisins.

Þar að auki býður uppbyggingin í Vatnsmýrinni upp á ómetanlegt tækifæri til að byggja upp þekkingarklasa miðsvæðis, nánast frá grunni, þar sem fyrir eru núna háskólar, hátæknifyrirtæki, hátæknisjúkrahús. Þarna getur myndast suðupottur sem dregur að sér nýsköpun, hæfileikafólk hvaðanæva að, með byggð í staðinn fyrir malbik. Þetta skiptir máli. Þetta skiptir ekki bara máli fyrir höfuðborgarbúa, þetta skiptir máli fyrir landsmenn alla, landsbyggðarfólk sem sækir til höfuðborgarinnar þjónustu, nám, afþreyingu og störf til lengri og skemmri tíma.

Af þessum sökum er nauðsynlegt að ríki og borg vinni saman með mjög afgerandi hætti að því að finna innanlandsflugi til og frá höfuðborginni nýjan stað sem uppfyllir þær kröfur sem við gerum til slíkra samgöngumáta.

Um þetta er samkomulag, frú forseti, en menn verða þá að standa við það að leita samkomulags. Í máli hv. framsögumanns kom fram áðan að í samgönguráðuneytinu væri t.d. verið að meta kosti í Hvassahrauni. Mér hefði þótt áhugavert að sjá tillögu um að þing ályktaði um að þeirri vinnu yrði flýtt svo óvissu yrði aflétt um þessi mál. Það hefði verið uppbyggileg umræða og kannski eigum við hana eftir.

Þá er ég komin aftur að þeirri tillögu sem er til umræðu hér. Ég sagði áðan að ég gæti svarað spurningunni játandi og að ég hefði oftar en einu sinni svarað spurningu af sama toga jákvætt. En svo vandast málið — eða mögulega má segja að það skýrist. Í greinargerð með ályktuninni segir, með leyfi forseta:

„Er því talið afar brýnt að þjóðin fái tækifæri til þess að segja hug sinn varðandi umrætt málefni og hafa þannig áhrif á endanlega niðurstöðu málsins sem gæti m.a. falist í tilfærslu á skipulagslegu ákvörðunarvaldi með lögum, að teknu tilliti til mikilvægra almannahagsmuna.“

Hér liggur kannski hundurinn grafinn. Þessi litla og látlausa þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu með spurningu sem þegar hefur verið spurt og svarað er inngangur í eina stærstu eignaupptöku í sögu íslenska ríkisins.

Þegar litið er til lista flutningsmanna, ekki síst til þess fjölda Sjálfstæðisþingmanna sem þar eru á blaði, kemur setningin „nú er hún Snorrabúð stekkur“ óneitanlega upp í hugann. Sú staðreynd að enginn Reykjavíkurþingmaður þeirra er á lista vekur hins vegar enga undrun. Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra í þeim hér í umræðunni.

Mér finnst í þessum málum að við getum gert betur og mér finnst að við eigum að gera betur. Fyrsta skrefið þar hjá okkur öllum væri að sameinast um að standa við fyrirheitið um að leita lausna um nýjan stað. Það hlýtur að þýða, ef við viljum gæta allrar sanngirni, að við leitum að lausn þar til samstaða næst en gefum ekki fyrirheit um stöðnun og varnargirðingu um núverandi staðsetningu.