149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er athyglisverð tillaga til þingsályktunar sem við erum að fjalla um hér í dag, um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Það er ekki síður athyglisvert að sjá hverjir bera fram þessa tillögu. Þarna er um að ræða þrjá þingmenn Framsóknarflokks, sjö þingmenn Sjálfstæðisflokks, tvo, þrjá, fjóra þingmenn Miðflokksins og einn þingmann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Já, gott ef þetta eru ekki sex þingmenn Miðflokksins, það er svo breytilegt hvað eru margir í Miðflokknum þannig að ég átti erfitt með þetta.

Maður veltir fyrir sér af hverju þessi tillaga kemur fram á þessum tímapunkti þegar nefnd er að störfum hjá hæstv. samgönguráðherra um nýja staðsetningu Reykjavíkurflugvallar eða hvað verði um Reykjavíkurflugvöll. Manni finnst þetta svolítið sérstakt þegar verið er að vinna hjá ríkisstjórninni ákveðna vinnu.

Hver er tillagan? Jú, að Alþingi álykti að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli áfram vera í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Punktur. Ekki til framtíðar, ekki tímabundið heldur bara skuli vera áfram. Það þýðir: Skuli vera áfram. Ef maður horfir á orðin sem standa þarna er það tillagan.

Það er búið að bæta við að eftirfarandi spurning skuli vera borin upp í þessari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu:

„Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?“ — Já eða nei.

Þessi spurning er ekki í samræmi við orðanna hljóðan í fyrstu málsgrein þessarar tillögu því að þarna er bara verið að tala um tímabundið ástand, á meðan að nefndin er að störfum, væntanlega, og kemur með enn eina niðurstöðuna.

Það er engin deila um að Reykjavíkurflugvöllur er þarna núna, honum verður ekki lokað. Það hefur enginn talað um það að Reykjavíkurflugvelli verði lokað. Það er búið að ákveða hvað eigi að gera. En það þarf líka að fara alla leið. Ég vil hvetja flutningsmenn þessarar tillögu til að koma með okkur hinum í að hraða þeirri framkvæmd, að haldið verði áfram með það verkefni sem var farið af stað með fyrir margt löngu. Það eru áratugir síðan Reykvíkingar kusu Reykjavíkurflugvöll burt í kosningu 2001. Það var nú bara þannig. Og af því að hv. fyrsti flutningsmaður hefur nú beðið um að fara í andsvör vænti ég þess að hann ætli að fara að tala sem umboðsmaður ógreiddra atkvæða í þeirri atkvæðagreiðslu. En það var samt þannig.

Við þurfum að lyfta innanlandsfluginu upp á næsta stig. (Gripið fram í.) Við þurfum að fara að lyfta innanlandsfluginu upp á það stig að sinna því með sóma. En það er ekki þannig núna. Þegar við vorum að ræða samgönguáætlun í umhverfis- og samgöngunefnd fyrir jól kom fram að aðstaða til kennsluflugs á Reykjavíkurflugvelli er afskaplega bágborin og í rauninni í algeru skötulíki. Það kemur ekki síst til af því að næturflug er bannað, að sögn þeirra sem komu fyrir nefndina. Það er ekki hægt að sinna því. Samt búum við við þær aðstæður að við erum með dagsbirtu allan sólarhringinn hluta af árinu, en það má ekki af því að flugvöllurinn er innan borgarmarkanna.

Nú er það svo að miðstöð sjúkraflugs, eins og kom fram í máli mínu fyrr í dag, er á Akureyri þannig að flutningsmenn tillögunnar eru þá að leggja til að landsmenn allir kjósi um það hvort miðstöð sjúkraflugs eigi að vera í Reykjavík en ekki á Akureyri. Það er ekki þannig að þegar búið er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu geti þeir sem leggja hana fram handvalið úr atkvæðagreiðslunni hvað þeir ætla að skilja af svörum. Það er ekki þannig. Við verðum að fara eftir niðurstöðunni.

En þá komum við einmitt að vandamálinu sem er það að ég held að allir þeir flokkar sem standa að baki þessari tillögu beri enga virðingu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er bara óvart þannig. Við höfum gengið til atkvæða um nýja stjórnarskrá, það var gert 2012, þar sem var spurt: Viljið þið eða viljið þið ekki að ákveðið plagg stjórnlagaráðs verði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá? Og hvar erum stödd 2019? Hafa þessir flokkar í hyggju að fara eftir því? Nei, mér heyrist ekki, nema síður sé. Það er ekki borin virðing fyrir niðurstöðu Rögnunefndarinnar sem skilaði af sér 2015. Þar var talað um að Hvassahraun væri langbesti kosturinn. Það er ekki borin virðing fyrir dómi Hæstaréttar frá 2016 þar sem sagt var að ríkinu skyldi gert skylt að loka norðaustur/suðvestur-flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Það er talað eins og þetta sé bara einhver geðþóttaákvörðun sem hafi verið tekin inni í ráðhúsi. Það er alrangt. Þetta er samkomulag ríkis og sveitarfélagsins Reykjavíkurborgar. Hæstiréttur komst að niðurstöðu um þetta. Þá geta ekki flutningsmenn komið hingað upp og látið eins og þjóðaratkvæðagreiðsla skipti engu máli, atkvæðagreiðsla sem Reykvíkingar fóru í skipti engu máli, niðurstaða dóms skipti engu máli og niðurstöður þverfaglegra nefnda, þverpólitískra nefnda, það er alls konar fólk í þessum nefndum, skipti heldur engu máli. Það skiptir heldur engu máli virðist vera fyrir flutningsmenn að það er nefnd að störfum núna.

Og hvað með skipulagsmál sveitarfélagsins? Það virðist vera einhver íþrótt hjá ákveðnum landsbyggðarþingmönnum að tala niður Reykjavíkurborg eins og það sé einhver ljóður á ráði Íslendinga að hafa fallega og frábæra borg, líflega borg, og að byggja hana upp. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur einmitt í sinni stefnumörkun áréttað hvað varðar sveitarstjórnarstigið og sjálfstjórn sveitarfélaga að skipulagsvaldið sé einn af hornsteinum sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga sem skuli virða. En ákveðnir þingmenn leyfa sér einhvern veginn að tala eins og þetta skipti engu máli. Sveitarfélögum er tryggður sjálfsstjórnarréttur í 78. gr. stjórnarskrár þar sem segir að sveitarfélögin skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Þá verður maður að spyrja: Bera flutningsmenn tillögunnar kannski heldur enga virðingu fyrir stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, eins meingölluð og hún nú er?

Við þurfum að fara að lögum, frú forseti. Við höfum ekkert val um það.

Uppbyggingin í Vatnsmýrinni er ekki til umræðu hér í dag. Við erum ekki að ræða mikilvægi þess að þétta byggð, mikilvægi þess að borgin verði blómleg, mikilvægi þess að hún sé umhverfisvæn, hagkvæm, samkeppnishæf og allt það. Það er í rauninni ekki til umræðu. Það er umræða sem við getum tekið einhvern tímann undir öðrum lið. Hér erum við að tala um alveg meingallaða þingsályktunartillögu þar sem 1. og 2. mgr. tala ekki saman. Það er auðvitað frekar vandræðalegt en svona gerist stundum á Alþingi Íslendinga.

Það er alveg rétt sem kemur fram í tillögunni að ekki ríkir einhugur um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Það breytir því ekki að Reykjavíkurborg fer með skipulagsvaldið á sínu svæði. Það breytir því ekki að gert var samkomulag milli ríkis og Reykjavíkurborgar um að ákveðinni braut skyldi lokað, norðaustur/suðvestur-brautinni. Það breytir því heldur ekki að það er verið að leita að annarri staðsetningu fyrir þennan flugvöll. Komum bara saman í það. Það er verkefnið sem við eigum að vera í til þess einmitt að geta eflt innanlandsflugið, sem ég veit að hv. flutningsmaður þessarar tillögu er (Forseti hringir.) mjög mikill áhugamaður um. Ég skal alveg koma með honum í það.