149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er töluvert stærilæti í henni, eins og kemur oft fram í máli hv. þingmanns, en ég ætla þá bara að spyrja spurningarinnar: Hvernig á að bregðast við, hver er framtíðarlausnin, fyrst hv. þingmaður virðist vera með lausnir allra lausna, eins og stundum áður? Hvernig á að bregðast við þessum hagsmunum? Hvað er með öryggishagsmunina? Er ekkert að marka það sem fram kemur í samgönguáætlun frá öryggisnefnd FÍA, flugfélögunum? Er ekkert að marka það sem kemur fram um sjúkraflugið og mikilvægi þess fyrir alvarlega veikt fólk og slasað að komast að sjúkrahúsinu, 400–500 manns á ári? Í því eru F1-flutningar og F2-flutningar. Er hægt að treysta borgaryfirvöldum eitthvað frekar í dag fyrir aðalskipulagi Reykjavíkur?

Gert er ráð fyrir að norður/suður-brautin verði farin 2022, sem eru nákvæmlega sömu tímamörk og voru árið 2013 þegar undirskriftasöfnunin var. Þá átti norður/suður-brautin að fara 2016. Getur hv. þingmaður verið sammála mér um að það sýndi samningsvilja Reykjavíkurborgar að taka upp aðalskipulagið og lengja þá fresti sem eru í dag með norður/suður-brautina 2022 og flugvöllinn allan 2024 meðan leitað er leiða sem verið er að skoða núna, eins og Hvassahraunið, og samhengi hlutanna? Hvassahraunið er í skoðun, en það verður ekki kominn nýr flugvöllur í Hvassahrauni ef sá staður verður valinn eftir þrjú ár. Sagan er svolítið þannig að iðulega hefur ekki verið hægt að treysta Reykjavíkurborg í þessu (Forseti hringir.) ferli síðustu 10–20 árin.