149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki með neitt stærilæti í þessu. Ég hef dálítið gaman af þessari tillögu af nákvæmlega þeirri ástæðu sem ég lýsti. Mér finnst hún kómísk í sjálfu sér.

Það eru til ýmsar lausnir sem ræddar hafa verið á framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Þar á meðal er einmitt Hvassahraun. Einnig hefur verið rætt um Keflavík. Við erum samhliða þessu öllu saman að ræða hér möguleika á einhvers konar lestarsamgöngum, hröðum lestarsamgöngum við Keflavík sem gætu mögulega breytt myndinni, hvort Keflavík gæti verið framtíðarstaðsetning innanlandsflugs eða ekki.

Mér finnst ágætt að hafa það í huga, t.d. varðandi tengingu alþjóðaflugsins og innanlandsflugsins, að í því eru líka sjálfstæðir kostir fyrir landsbyggðina ekkert síður en hagsmuni höfuðborgarinnar við það að fá flugvöllinn fluttan.

En ég ætla ekki að þykjast manna fróðastur um það hvar hentugast sé að setja völlinn niður, hvort Hvassahraun sé besti kosturinn, hvort Keflavík með lestarsamgöngum sé besti kosturinn. Ég treysti fyllilega þeim aðilum sem eru að skoða þessa kosti að meta það. Vandinn hefur hins vegar verið sá að málið snýst ekki um traust á meiri hlutanum í Reykjavíkurborg um það hvort vellinum hér verði lokað út frá gildi aðalskipulags.

Ég leyfi mér að efast um að Reykjavíkurborg taki einhliða ákvörðun um að loka hér meginflugbraut vallarins með enga aðra lausn í hendi. En það er landsstjórnin sem dregið hefur lappirnar í þessu máli alla tíð, neitað að viðurkenna vilja borgaranna til að færa völlinn. Það er á ábyrgð þeirra sem hafa stýrt málum í landsstjórninni, sömu flokkum og þeir þingmenn eru í sem standa að þessari tillögu, að ekkert hefur gerst í málinu öll þessi ár, af því að menn hafa þverskallast við að virða vilja borgarinnar um flutning vallarins. Það er ástæðan fyrir því að við erum að lenda í tímaþröng, (Forseti hringir.) ekki af því að það sé einhver stífni í borginni. Borgin hefur löngu lýst (Forseti hringir.) vilja sínum í málinu.