150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að hér geti verið þingfundur í dag til að taka þetta mál á dagskrá og að það skuli fá afbrigði til að komast að. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald. Með frumvarpinu er lagt til að gjalddaga helmings þeirrar staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds sem var á gjalddaga 1. mars 2020 verði frestað um mánuð og að eindagi verði 14 dögum eftir það. Eindagi staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds ætti að öllu óbreyttu, vegna þess helmings sem er frestað, að vera 16. mars 2020 en verður 15. apríl 2020, verði frumvarpið að lögum. Um tímabundna og almenna einskiptisaðgerð er að ræða og lagt til að við áðurnefnd lög bætist ný ákvæði til bráðabirgða.

Á þeim tíma sem veittur er greiðslufrestur samkvæmt frumvarpinu, þessum mánuði sem hér er skapaður, verður unnið að útfærslu nýrrar leiðar sem tryggir fyrirtækjum sem lent hafa í greiðsluvanda úrræði til greiðsludreifingar umfram þetta. Þá eiga þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu ekki við um staðgreiðslu samkvæmt lögum um fjársýsluskatt.

Með frumvarpinu er lengdur sá tími sem má líða án þess að vanskilaviðurlögum sé beitt á helming þeirrar fjárhæðar sem var á gjalddaga í mars 2020. Sé staðgreiðsla opinberra gjalda ekki greidd á réttum tíma ber að greiða álag samkvæmt 28. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Frumvarpið felur í sér að álagi samkvæmt 28. gr. laganna verði ekki beitt fyrr en 16. apríl nk. vegna þeirra staðgreiðsluskila sem frestað er. Frumvarpið felur í sér að vangreitt tryggingagjald sem annars bæri dráttarvexti frá gjalddaga, eftir eindaga þess þann 16. mars, frestast þannig að það beri ekki dráttarvexti fyrr en eftir eindaga, þann 15. apríl. Þetta kemur nánar fram í frumvarpinu.

Mig langar til að víkja aðeins að þeirri staðreynd að hér eru mál unnin undir töluverðri tímapressu. Þannig háttar til að u.þ.b. 85% af öllum þeim sem eiga að skila staðgreiðslu og tryggingagjaldi 16. mars hafa þegar skilað inn skilagreinum og þannig er þegar búið að keyra út kröfur á þá aðila. Verði þetta frumvarp að lögum mun sú breyting eiga sér stað að í stað þess að þurfa að greiða þá kröfu á mánudaginn verður henni tvískipt. Þá fer út önnur keyrsla í gegnum tölvukerfin. Í samræmi við það sem ég hef hér rakið verður fyrri helmingurinn með eindaga á mánudaginn og seinni helmingurinn með eindaga 15. apríl 2020. Það leiðir af eðli máls að án lagaheimildar er ekki hægt að keyra út þessa breytingu í heimabönkum, en við gerum ráð fyrir því að þeir sem þegar hafa greitt geti óskað eftir því að dreifa greiðslunni og fá endurgreiddan þann hluta sem þegar hefur verið greiddur.

Ég tel mikla samstöðu um það í þinginu að við þurfum að sýna markviss viðbrögð við þeim aðstæðum sem hafa skapast. Við finnum þegar fyrir áhrifum veirunnar á efnahagslíf okkar en með viðbrögðum eins og hér eru lögð til er hægt að draga verulega úr neikvæðum áhrifum þess sem hefur þegar birst okkur. Ég ætla að segja fyrir mitt leyti að þeirri hugmynd að dreifa greiðslum vegna gjalddagans 16. mars hafði ekki verið hreyft við mig í síðustu viku, en eftir að við sáum það úrræði nýtt víða annars staðar, eftir að við sáum hvatningu frá alþjóðastofnunum, skoðuðum þann möguleika heima fyrir og rifjuðum auðvitað upp reynsluna frá því fyrir rúmum áratug af slíku úrræði, þótti okkur sjálfsagt að segja strax frá því að við værum að vinna að slíkri lausn. Mér finnst það vera til merkis um hversu hratt hlutirnir eru að breytast að á örskömmum tíma hefur skapast gríðarlegur þrýstingur á að ljúka afgreiðslu þessa máls. Mér finnst skylt að koma því til skila við framsögu málsins að fjöldinn allur af fyrirtækjum treystir á að málið nái fram að ganga þannig að lausafjárstaðan verði betri sem þessu nemur.

Að sjálfsögðu treysta menn síðan á að úrræðin sem við ætlum að smíða í framhaldinu muni duga þeim sem lenda í vanda vegna niðursveiflunnar, vegna hreinlega tekjutaps. Dæmin sem við heyrum eru um að salan falli um 30–40% og meira í síðustu viku og í þessari viku. Í smásölunni eru áhrifin þegar komin fram og þau eru umtalsverð. Eflaust eru fá dæmi um önnur eins áhrif á tekjustraum slíkra fyrirtækja. Auðvitað eru allir að ræða um ferðaþjónustuna. Vandinn þar er augljós og óvissan hjálpar ekki til, en því viljum við mæta með þessu frumvarpi og aðgerðum sem fylgja í kjölfarið.

Gert er ráð fyrir því að með frumvarpinu, verði það að lögum, höfum við áhrif á u.þ.b. 22 milljarða sem ella hefðu komið til greiðslu nk. mánudag. Gert er ráð fyrir að þessar lagabreytingar hafi í för með sér seinkun á tekjum ríkissjóðs upp á 22 milljarða kr. Það er helmingurinn af því sem er til greiðslu samkvæmt skilagreinum eftir helgi.

Við sjáum á þessari fjárhæð að þetta er gríðarlega stór efnahagsleg aðgerð. Ég verð jafnframt að segja að það er ekki alveg augljóst með hvaða hætti við munum sníða lausn fyrir framhaldið. Við höfum séð alls konar útfærslur á því í öðrum löndum. Mest af því hef ég bara sjálfur séð í fréttamiðlum en við höfum líka reynt að fá yfirsýn yfir helstu aðgerðir. Ég nefni sem dæmi að þegar menn segja að fyrirtæki í ferðaþjónustu eigi að fá greiðslufrest verður erfitt að draga mörkin. Eru fyrirtæki við Laugaveginn sem selja úlpur eða minjagripi fyrirtæki í ferðaþjónustu? Þegar menn segja að fyrirtæki sem hafa orðið fyrir 25% tekjufalli eigi að fá fyrirgreiðslu spyr ég: Hvað með fyrirtæki sem fékk 23% tekjufall? Hvað á að gera fyrir það? Jaðaráhrifin af slíkum reglum geta orðið gríðarleg.

Við verðum á sama tíma að horfast í augu við það að heildarsvigrúm okkar til að koma til móts við þessar aðstæður er ekki ótakmarkað. Þegar við stígum nú fyrstu skrefin við að skilja eftir fjármuni í atvinnulífinu þegar þar þrengir að skulum við hafa í huga að við munum ekki geta tekið endalaust mörg skref. Það er mjög mikilvægt að hvert og eitt skref sem stigið verður rati þangað sem við ætlum áhrifunum helst að koma fram, ella bjóðum við heim hættunni á því að við höfum gert of mikið fyrir of marga en allt of lítið fyrir þá sem eru í mestri þörf.

Þetta held ég að sé stærsta sameiginlega úrlausnarefnið okkar vegna aðgerðanna fram undan. Ég er ekki að segja þetta sérstaklega bara um þetta mál hér en ég held að það eigi við um þetta mál að þegar við förum út í lengri tíma útfærslu, sem samkvæmt frumvarpinu er ætlað að verði á næstu vikum, áður en næsti gjalddagi kemur, þurfum við að hafa þetta í huga. Slíkar ákvarðanir geta ráðið mjög miklu um það hvort viðleitni stjórnvalda skilar þeim árangri sem að er stefnt.

Það sama á við um önnur frumvörp sem munu líta dagsins ljós. Ég nefni t.d. stuðningskerfin vegna uppsagna og frumvörp um greiðslur í sóttkví, að sjálfsögðu líka frumvörp um lækkun skatta eða annarra gjalda sem munu líta dagsins ljós. Þar munum við leitast við að haga útfærslunni með þeim hætti að við náum til þeirra sem við vitum að eru í mestri þörf.

Að því sögðu vil ég koma þeim skilaboðum til allra þeirra sem eiga gjalddaga á mánudaginn vegna opinberra gjalda að séu þeir ekki í þeirri stöðu að þurfa á gjaldfrestinum að halda bið ég um að menn standi skil á sínu, að menn taki ekki lán hjá ríkissjóði nema þeir séu í þörf fyrir fyrirgreiðslu. Frumvarpið er gert þannig úr garði að allir eiga jafnan rétt. Allir eiga rétt á að nýta sér það svigrúm sem hér skapast og ég mun ekki gera athugasemdir við það. Ef okkur auðnast að skapa þá samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir sem við þurfum að gera tekst okkur að standa saman jafnframt um að svigrúmið sem við höfum nýtist þeim sem eru í mestri þörf. Þess vegna segi ég að fyrirtæki sem ekki eru í þörf fyrir dreifingu gjalddaga ættu einfaldlega að standa í skilum eins og upphaflega var áætlað.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.