150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hækkuðum atvinnuleysisbæturnar um 19% vorið 2018. Það varð verulega mikil aukning á réttindum í atvinnuleysistryggingum með þeirri breytingu. Við höfum líka séð á útgreiðslum Atvinnutryggingarsjóðs að það hefur haft gríðarlega mikil áhrif. Ég held við hljótum öll að vera sammála um það að við viljum reyna að bjarga sem flestum störfum og komast í gegnum það tímabundna ástand sem við erum hér að horfa á. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að þegar við horfum upp á óumflýjanlegt atvinnuleysi verðum við að hlúa að því fólki en ég tel að kerfið okkar sé sterkt og nokkuð öflugt.

Varðandi sjálfstætt starfandi finnst mér ekki útilokað að við gætum t.d. aukið ráðstöfunartekjur þeirra með því að heimila fólki að taka út séreignarsparnað eins og gert var á sínum tíma. Það er algerlega kostnaðarlaus aðgerð fyrir ríkissjóð.