150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þegar menn benda á að við megum ekki skilja einstaka hópa eftir eins og þá sem eru sjálfstætt starfandi og við munum huga að því. Hérna erum við að ræða um aðgerðir sem maður vonast auðvitað til að sem mest samstaða geti tekist um í þinginu. Ég hef lýst því hér yfir að kostnaðurinn af því að ganga of skammt verði í mínum huga alltaf meiri en kostnaðurinn af því að hafa gert aðeins of mikið, aðeins meira en þörf krefur. Þess vegna munu tillögur mínar til þingsins bera þess merki að við tökum stöðuna mjög alvarlega, að við ætlum að nýta okkur þá stöðu sem við höfum byggt upp á undanförnum árum til að takast á við svona áfall. Til þess vorum við að því. Ég vonast til þess að samtalið hér í þinginu leiði síðan fram bestu mögulegu lausn og við munum hraða tillögum hingað til þingsins eins og við mest getum.