150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Sveiflujöfnunin er innbyggð í skattkerfið en sveiflujöfnunin í fyrirsjáanlegri framtíð til lækkunar tekna ríkissjóðs kemur til af því, a.m.k. hvað fyrirtækjahlutann varðar, að staða fyrirtækja er að þrengjast mjög hratt og mikið. Sú staða hefur verið að þrengjast með þeim hætti í rauninni allt síðasta ár jafnt og þétt. Ef maður velur einn tímapunkt mætti sennilega helst tilgreina fall flugfélagsins Wow sem upphafspunkt þeirrar þróunar. Hún er búin að vera mjög ákveðin síðan í haust.

Ég ætla ekki að koma fram með sérstaka viðbótarspurningu núna heldur fagna því að fjármálaráðherra ítreki hér það sem hann sagði í gær, að það væri áhættuminna að ganga lengra en skemmra í þeim aðgerðum sem fram undan eru.