151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

störf þingsins.

[13:17]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru mikil gleðitíðindi að í frumvarpi til laga um loftferðir, sem nú er komið inn í þingið, sé að finna ákvæði, nánar tiltekið 146. gr., sem segir, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög eru bundin af skipulagsreglum flugvallar frá gildistöku þeirra og skulu við gerð eða breytingu skipulagsáætlana samræma gildandi svæðis-, aðal- og deiliskipulag eftir því sem við á að skipulagsreglum flugvallar innan fjögurra ára frá samþykkt viðkomandi skipulagsreglna.“

Hér er um grundvallarmál að ræða þar sem komið er í veg fyrir að einstök sveitarfélög geti farið gegn helstu öryggishagsmunum þjóðarinnar. Þetta er vel gert hjá hæstv. samgönguráðherra og ber að hrósa honum fyrir þessa framgöngu. Öryggishagsmunir þjóðarinnar krefjast þess að ráðherra geti sett skipulagsreglur fyrir flugvelli sem ganga framar svæðis-, aðal- og deiliskipulagi sveitarfélaga. Þetta er enda ekki án fordæma, hvort sem litið er til nágrannalandanna eða hingað heim. Keflavíkurflugvöllur fellur t.d. í dag undir skipulagsvald ríkisins. Mér finnst eðlilegt að aðrir flugvellir geri það líka þannig að almenn regla sé um þessi mál og sveitarfélögin geti ekki stigið fram með sérstök mál og gripið inn í þegar kemur að svona miklum öryggismannvirkjum.

Annað dæmi: Í vegalögum frá 2007 er kveðið á um að sveitarfélagi sé óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar um veglagningu hafi það minna umferðaröryggi í för með sér. Þannig getur ríkið tekið yfir skipulagsvald sveitarfélagsins séu öryggishagsmunir í húfi. Sömu rökum má beita í flugsamgöngum. Öryggishagsmunir almennings eru ofar öllum öðrum hagsmunum. Við þurfum að leggja höfuðáherslu á að tryggja stöðu grunninnviða samfélagsins og aðra mikilvæga samfélagslega innviði sem varða öryggi þjóðarinnar. Í stuttu máli má segja að Íslendingar séu langt á eftir nágrannalöndum þegar litið til þjóðaröryggishagsmuna í tengslum við helstu samgöngumannvirki þjóðarinnar.