151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

störf þingsins.

[13:26]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við þekkjum það öll að samfélag okkar hefur fært miklar fórnir í tengslum við baráttuna gegn útbreiðslu kórónuveirufaraldursins, mismiklar þó. Efnahagslega höggið hefur verið þungt en misþungt. Við erum svo lánsöm hér á landi að staðan hefur verið mjög góð þegar litið er til annarra landa og fyrir það ber að þakka, ekki síst almenningi sem hefur í þessari baráttu sýnt enn og aftur styrk sinn og samheldni þegar á bjátar. En nú brennur á okkur öllum spurningin hvenær lífið kemst aftur í eðlilegt horf. Það verður að segjast eins og er að þar kveður við gamalkunnugt stef. Það er liðkað til á landamærunum og það kemur bakslag. Opin landamæri eru auðvitað stór hluti af eðlilegu lífi okkar landsmanna, að ekki sé talað um mikilvæga efnahagslega viðspyrnu sem við bíðum öll eftir. Raunveruleikinn er hins vegar sá í ljósi stöðunnar að opin landamæri þýða hertar sóttvarnaaðgerðir hér innan lands. Það eru einfaldlega mjög dýrkeyptar aðgerðir og hætt við því, eðlilega, að þol almennings fyrir þessum dansi fram og til baka minnki með hverju bakslaginu. Hann borgar líka brúsann og efnahagslegt mat á kostum og göllum þessara aðgerða hefur ekki enn þá legið fyrir svo skýrt sé.

Væntingar stjórnvalda eru til þess að bólusetning þjóðarinnar sé leiðin út úr þessu ástandi. Nú er það svo að staðan á bólusetningum hér á landi er ekkert til að hrópa húrra fyrir, svo ég noti nú inniröddina. En gott og vel, það eru væntingar stjórnvalda. Væntingar til stjórnvalda eru þær að þau hafi plan sem færi okkur áfram, ekki eitt skref áfram og eitt skref til baka aftur og aftur.