151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef heyrt einmitt þetta svar áður og það hefur reyndar komið fram í andsvörum fyrri ræðumanna en það gengur hins vegar ekki upp. Ef niðurstaðan var meiri hagvöxtur en búist var við þegar árið var gert upp hefði maður haldið að það myndi leiða til spár um lægra atvinnuleysi eða að atvinnuleysið myndi kannski minnka með þessum aukna hagvexti sem við getum þá deilt með fleirum, kakan myndi stækka og allt þetta, sama klisjan og venjulega. Það sem ég er að reyna að segja er að þjóðhagsspáin gerði ráð fyrir auknum hagvexti og hagvöxtur myndi stigaukast á næstu árum upp í venjulegt ársmeðaltal og ef við erum að fá hann aðeins fyrr, fá aðeins aukinn hagvöxt aðeins fyrr, þá á það ekki endilega að þýða lægri hagvöxt í kjölfarið því samkvæmt spánni var áframhaldandi aðeins hærri hagvöxtur í spilunum. Það gerðist ekki. Hagvöxturinn var vissulega meiri þegar niðurstaðan kom en samt var atvinnuleysið meira og samt eru horfurnar hvað varðar atvinnuleysi verri en þær voru í haust, þrátt fyrir stefnu stjórnvalda. Þess vegna spyr ég aftur: Ef stefnan hefur ekki þau áhrif að minnka atvinnuleysið, af hverju er hún þá óbreytt?