151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:41]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hv. þingmaður dragi fram það sem hann gerði hér, t.d. spár um fjölda ferðamanna, þegar við horfum nú mögulega framan í nýja bylgju af faraldri, og gripið var til aðgerða í dag út af því. Það er okkar hlutverk í hv. fjárlaganefnd að ræða þessar forsendur. Ég vil líka minna á að í forsendum fjárlaga sem nú gilda var t.d. ekki gert ráð fyrir loðnuvertíð. Við fengum þó ágæta loðnuvertíð. Það er nú svona með þessar spár og áætlanir okkar að þær geta tekið einhverjum breytingum. Ég nefndi í ræðu minni áðan að eftirspurnarsamdrátturinn hér innan lands hefði verið miklu minni en við óttuðumst. Ef við setjum það í samhengi við það hvort ferðamenn verða 700.000 eða 400.000 þá vil ég segja að það sem ræður fyrst og fremst okkar hag er hvernig mótvægisaðgerðir okkar eru, hvernig þróttur efnahagslífsins er, hvernig staða heimilanna er og hvernig kraftur fyrirtækjanna er til þess að ráða við stöðuna. Ég vil ekki segja að við þurfum ekki að ræða um forsendur fyrir spá um fjölda ferðamanna, ég held að þær geti líka breyst ef áætlanir um bólusetningar ganga eftir eins og þær hafa verið birtar, þó að kannski sé eitthvað í þoku í þeim efnum.

Varðandi síðari hluta andsvars hv. þingmanns um fáar krónur þegar við tölum um prósentur á lágar bætur þá er ég honum hjartanlega sammála. Það er svolítið villandi oft og tíðum að tala um prósentur þegar stofninn er lágur. Þá er mitt viðbragð þetta: Náum við samstöðu um að tala frekar um krónuhækkanir? Náum við samstöðu um að bæta kjör þessa fólks með því að tala um krónur og fjölda þeirra? Náum við samstöðu um að þær ryðji þá ekki brautina upp allan skalann eins og við höfum oft og tíðum þurft að glíma við?