151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:12]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseta. Það er að heyra að verkefni félags- og barnamálaráðherra séu mikilvæg og þau eru auðvitað margvísleg. En málefni barna, öryrkja og eldri borgara skipta sjálfsagt mestu máli. Í málefnum eldri borgara þarf að ráðast í löngu tímabærar endurbætur. Skerðingar og afar óréttláta skattheimtu verður að afnema, leita raunhæfra lausna og þurfa þær lausnir að vera í anda þeirra aðgerða sem ráðist var í fyrir hrun. Við verðum að nýta öll tækifæri samfélagsins og tryggja að ávinningurinn skili sér á sanngjarnan hátt til allra landsmanna. Stærstur hluti ráðstöfunartekna fer í húsnæði, hvort heldur sem er í leigu eða afborganir. Það þarf að vera nægt framboð á húsnæði um land allt. Vextir hafa vissulega lækkað og það er vel, en gallinn er sá að í því ástandi sem nú er er eftirspurn miklu meiri en framboð. Þetta þýðir að í mörgum tilfellum fer lækkun vaxta beint út í verð húsnæðis. Vaxtalækkun leiðir því til þess að á meðan ekki er nægt framboð húsnæðis er fólk, sérstaklega ungt fólk, litlu betur sett. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst bregðast við þessu, sérstaklega varðandi öryrkja. Margt ungt fólk er því miður öryrkjar og þetta hlýtur að snerta þann hóp sérstaklega illa.