151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:46]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla byrja á landbúnaðinum. Ég hef verið óþreytandi að ræða það síðustu fjögur ár að við þurfum að auka og auðvelda grænmetisframleiðslu hér á landi vegna þess að íslenskt grænmeti er gott, en einnig til þess að draga úr kolefnismengun sem hlýst af innflutningi. Með því fæst einnig gjaldeyrissparnaður, meira fæðuöryggi, styrking byggða og aukin atvinna. Við í Samfylkingunni leggjum áherslu á að hagsmunir bænda og neytenda fari saman í nýsköpun, sjálfbærni og velferð dýra. Að styrkja umhverfi landbúnaðarins tryggir rekstraröryggi og afkomu bænda, styrkir byggðir, eykur frelsi bænda og leiðir af sér hagkvæma og vistvæna gæðaframleiðslu. Í nýrri umhverfisstefnu Bændasamtakanna skerpir íslenskur landbúnaður áherslur sínar í umhverfismálum og hvetur bændur og landbúnaðinn í heild til að huga að vistbætandi verkefnum. Umhverfisstefnan á að vera leiðarljós, hvatning og verkfæri til jákvæðrar ímyndarsköpunar og sá grunnur sem framtíðarsamstarf bænda og stjórnvalda í umhverfismálum byggir á.

Í stefnunni er rætt um mikilvægi þess að endurskoða búvörusamninga og aðra framtíðarsamninga ríkis og bænda um umhverfistengd verkefni, sem er fagnaðarefni, en til þessa þarf að styðja landbúnaðinn. Nú kom tilkynning frá Stjórnarráðinu í vikunni þar sem tilkynnt var um meinta hækkun á framlögum til loftslagsaðgerða. Þar er m.a. nefndur loftslagsvænni landbúnaður og er þar gert ráð fyrir að fram til ársins 2031, sem er reyndar mun lengri tími en sú áætlun sem við ræðum hér um gildir til, verði framlög til loftslagsvænni landbúnaðar 1.250 millj. kr. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin sé með skýr markmið með þessu framlagi. Það væri áhugavert að vita í hvaða formi þessi framlög verða. Erum við að ræða um skattalegar ívilnanir vegna orkuskipta eða beina styrki? Eða með öðrum orðum: Í hvað er ætlunin að þessir styrkir fari?