152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

530. mál
[13:49]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna, sem tekur til samþættingar þjónustu og snemmtæks stuðnings. Frá árinu 2018 hefur umfangsmikil vinna átt sér stað innan stjórnsýslunnar og á vettvangi þingmannanefndar um málefni barna, með virku samráði við hagsmunaaðila, við að greina stöðu barna og hvernig auka megi farsæld barna og barnafjölskyldna. Unnið var í samræmi við stefnuyfirlýsingu samstarfs ríkisstjórnarflokkanna þriggja sem hófst árið 2017 þar sem kom fram að kappkostað verði að þjónusta við börn og unglinga og fjölskyldur þeirra sé ætíð sem best og að íslenskt samfélag sé barnvænt. Meðal helstu niðurstaðna úr þessari vinnu er að bæta þurfi snemmtækan stuðning við börn og auka samvinnu þeirra sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu.

Umfangsmiklar lagabreytingar voru samþykktar á 151. löggjafarþingi sem stefna að þessum markmiðum. Helst ber að nefna samþykkt laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem fela m.a. í sér grundvallarbreytingar á umgjörð samvinnu þeirra sem veita börnum og barnafjölskyldum þjónustu. Samhliða voru gerðar breytingar á stofnunum ríkisins sem fara með verkefni sem tengjast þjónustu í þágu barna með samþykkt laga um Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna kalla á breytingar á verklagi hjá öllum sem veita börnum þjónustu. Verklaginu er ætlað að grípa fyrr inn í aðstæður barna og tryggja skýra ábyrgð milli kerfa á að bregðast við vísbendingum um að barn búi ekki við þær aðstæður sem það ætti að gera ásamt því að þeir sem veita börnum þjónustu vinni saman að því að styðja barnið og fjölskyldu þess.

Virðulegi forseti. Undir málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins fellur mikilvæg velferðarþjónusta og stuðningur við barnafjölskyldur. Til að styðja við markmið samþættingarinnar og tryggja að engar hindranir standi innleiðingu verklagsins í vegi var farið yfir löggjöf sem heyrir undir ráðuneyti mitt. Niðurstaða yfirferðarinnar var að leggja fram frumvarp það sem ég mæli hér fyrir.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum á málefnasviði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem er ætlað að samræma löggjöf við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og styrkja umgjörð um þjónustu og snemmtækan stuðning í þágu barna.

Meginmarkmið frumvarpsins er að skapa umgjörð í lögum sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Ákvæði frumvarpsins hafa það að markmiði að afnema lagalegar hindranir sem geta komið í veg fyrir samstarf um veitingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpinu er ætlað að skapa skilyrði til að bregðast fyrr við tilteknum aðstæðum eða erfiðleikum í lífi barns með viðeigandi stuðningi þegar þörf þykir. Þá er ætlunin að bæta og skýra ákvæði laga sem fjalla um þjónustu við börn og réttindi barna. Við útfærslu ákvæðanna hefur verið lögð áhersla á að stjórnsýsla og eftirfylgni mála sé skilvirk og eins einföld í framkvæmd og mögulegt er út frá sjónarhorni barna.

Lagt er til að gerðar verði breytingar á fjórum lagabálkum á málefnasviði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, nánar tiltekið lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008, og lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. Þá eru lagðar til minni háttar breytingar á nýsamþykktum lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar sem tengjast lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Um er að ræða nauðsynlegar afleiddar breytingar vegna laganna, þar með talið vegna hugtakanotkunar og nýrra verkferla, samanber einkum 5. gr., 12. gr. og 15. gr. Meðal sértækari breytinga eru skýringar á hlutverki réttindagæslumanna fatlaðs fólks við samþættingu þjónustu, samanber 17. gr.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar til að endurspegla áherslu á snemmtækan stuðning og almennar aðgerðir á fyrsta stigi þjónustu. Lagt er til í 1. gr. að markmið laga um félagsþjónustu sveitarfélaga endurspegli áherslu á snemmtækan stuðning og snemmtæka íhlutun. Einnig er lagt til að skerpt verði á ábyrgð þjónustuveitenda til að veita snemmtækan stuðning og snemmtæka íhlutun á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar sem miða að því að uppfæra lagaumhverfi með tilliti til nýrra stofnana, Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Jafnframt eru lagðar til minni háttar breytingar sem tengjast starfsemi þessara nýju stofnana og hafa að markmiði að skýra valdmörk og draga úr óvissu um ábyrgð á verkefnum sem tengjast þjónustu í þágu barna.

Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar sem er ætlað að auka vægi réttinda barna samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, samanber lög nr. 19/2013. Í því skyni er lagt til að bætt verði við ákvæðum sem endurspegla valdar meginreglur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, einkum 3. gr. samningsins um það sem er barni fyrir bestu og 12. gr. samningsins um þátttöku barna.

Í fimmta lagi eru lagðar til minni háttar lagfæringar á gildandi lögum vegna ábendinga sem hafa borist félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.

Virðulegi forseti. Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun á þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpið varðar hagsmuni barna og fjölskyldna í víðu samhengi. Áhrif frumvarpsins ná fyrst og fremst til barna sem þurfa á sívirkum og snemmtækum úrræðum að halda og barna sem þurfa mikinn eða fjölþættan stuðning til lengri tíma og fjölskyldna þessara barna. Þar á meðal eru fötluð börn, börn fatlaðra foreldra og fjölskyldur sem njóta félagsþjónustu sveitarfélaga. Mikilvægi skilvirkrar velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu, skólastarfs, íþrótta- og æskulýðsstarfs og annarrar þjónustu í þágu barna varð mörgum landsmönnum skýrara í heimsfaraldrinum. Ekki síst varð gildi samvinnunnar og sameiginlegrar þrautseigja öllum ljóst. Gott samstarf við lykilaðila og öflug miðlun upplýsinga eru jú lykilatriði þegar tekist er á við krefjandi aðstæður.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá nóvember 2021 kemur fram að flokkarnir leggi áherslu á að aðbúnaður og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi. Samþykkt frumvarpsins hefur jákvæð áhrif á réttindi barna og stuðlar að því að íslensk stjórnvöld uppfylli í auknum mæli skyldur sínar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, samanber lög nr. 19/2013. Þar á meðal eru grundvallarákvæði samningsins sem fela í sér að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda byggist á því sem er barninu fyrir bestu og rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós í málum er þau varða.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.