Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

lækkun tolla og gjalda á innfluttar matvörur.

187. mál
[18:53]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegur forseti. Ég lagði þessa fyrirspurn fram undir lok september á síðasta ári. Með því að nefna þetta hér er ég á engan hátt að áfellast ráðherra fyrir að hafa ekki svarað fyrr heldur eru góðar og gildar ástæður fyrir því að þessi seinkun hefur orðið og ég fetti ekki fingur út í þá seinkun. Hitt er síðan að fyrir vikið hefur ráðherra haft nákvæmlega fimm mánuði og vel það til að skoða hvaða breytingum hann getur beitt sér fyrir varðandi lækkun tolla og gjalda á innfluttar matvörur til að berjast gegn verðbólgu. Eins og fyrirspurnin hljómaði: Mun ráðherra kappkosta að breyta reglum um tolla og úthlutun tollkvóta sem getur síðan leitt til lækkunar á matarverði? Nú erum við bara á síðustu vikum að sjá þessar gríðarlegu hækkanir á matarkörfunni og þá hljótum við að segja: Nú, ekki einhvern tímann á morgun eða eftir tvær vikur eða undir áramót eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill gera, er rétti tíminn til þess að rétta af bókhaldið hjá fólkinu í landinu. Ráðherra hefur haft þessa fimm mánuði og ég trúi því að hún muni leggja hér á borð ákveðnar hugmyndir og tillögur um hvað hægt er að gera þegar kemur að lækkun tolla og gjalda.

Ég veit að hæstv. ráðherra kom fram í fréttum og fundaði núna í febrúar með ákveðnum aðilum vinnumarkaðarins, frá VR, LÍV og Rafiðnaðarsambandinu ásamt Félagi atvinnurekenda. Þar nefndu þeir ákveðnar hugmyndir sem gætu leitt til þess að lækka verð á ýmsum hlutum eins og að tollar verði felldir niður af alifugla- og svínakjöti auk franskra kartaflna, að tollar verði felldir niður af blómum sem eru ekki ræktuð á Íslandi, að tollar m.a. á mjólkur- og undanrennuduft og smjör falli niður líka og að innlendum afurðastöðvum og búvöru- og vinnslustöðvum í þeirra eigu verði óheimilt að bjóða í eða sækjast eftir tollkvótum. Við vitum það alveg og ráðuneytið á að vita það að ef flett er upp hverjir eru eigendur LL42 og Mata eru þetta aðilar sem eru tengdir stærstu landbúnaðarframleiðendum hér á landi. Þeir eiga ekkert að vera að bjóða í eða sækjast eftir tollkvótum með það eitt að markmiði að halda þeim fjarri og halda verðinu uppi. Þannig eru íslenskir neytendur ekki að njóta góðs af þessari litlu glufu sem þó fæst með tollkvótunum.

Ég vona að hæstv. ráðherra komi hingað og segi okkur hvað hægt er að gera til að lækka verð á matarkörfunni. Ég átti samskipti við einn sem er að selja landbúnaðarafurðir, m.a. kjötvörur, sem segir að á þremur árum hafi kílóverðið á tollkvótanum farið úr 220 kr. í 680. Auðvitað fer það bara beint út í verðlagið. Þessir tollar eru hreint og beint í boði ríkisstjórnarinnar. Þetta eru aðgerðir sem hún getur beint gripið til til að reyna að vinna gegn hækkandi matvælaverði og hækkun á matarkörfunni sem er mjög drjúgur liður í útgjöldum heimila, ekki síst þeirra sem lágar tekjur hafa.