Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

aðgangur fatlaðra að rafrænum skilríkjum.

178. mál
[19:09]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það hvernig hann hyggst tryggja aðgengi fatlaðra sem eru t.d. með þroskahömlun, einhverfu eða skyldar hamlanir, að rafrænum skilríkjum. Við vitum að það er leiðin okkar í dag til að afgreiða alls konar mál, hvort sem er í gegnum Heilsuveru eða til staðfestingar á ýmsum þáttum, m.a. í gegnum skóla eða vinnu. Um leið og tryggja þarf fötluðum einstaklingum þessa þjónustu sem fylgir þessum aðgangi þarf líka samhliða auðvitað að tryggja öryggi þessa hóps þannig að hann verði ekki auðvelt skotmark þeirra sem eru að nýta þeirra rafrænu skilríki. Þannig að mér þætti gott að heyra það því að ég veit að hæstv. ráðherra er áhugasamur um þessi mál og sérstaklega um málefni fatlaðra einstaklinga með ýmsar hamlanir. Ég er örugglega ekki eina foreldrið sem stendur frammi fyrir því þegar barnið þitt sem er fatlað er orðið 18 ára og allt í einu er bara búið að slíta á öll tengsl en það hefur samt ekki hæfileikana til að nýta sér rafrænu skilríkin, átta sig á þeim heimi sem fylgir því að nýta rafræn skilríki. Þannig að mig langar til að spyrja, af því ég veit að þetta hefur verið skoðað: Hver er staða þessara einstaklinga í kerfinu til þess að tryggja þeim þennan aðgang og um leið að öryggi þeirra sé líka vel gætt? Mér skilst líka að ESA sé með þessi mál í skoðun og fylgist með því hvort stjórnvöld séu að vinna í þessum málum, m.a. til að tryggja jafnt aðgengi allra einstaklinga, hvort sem þeir eru fatlaðir eða ófatlaðir, að þessum mikilvægu nútímatækjum og -tólum og leiðum til að geta einfaldlega lifað lífinu og náð í það sem þarf að gera, hvort sem það eru lyf eða fyrirspurnir til lækna eða önnur þjónusta sem við þurfum öll að nýta. Þannig að mér þætti gott ef hæstv. ráðherra gæti farið yfir stöðu þessa hóps sem oft er viðkvæmur, sem þarf á skýrum lausnum og leiðum að halda þannig að við séum ekki að flækja þeirra líf meira heldur en fyrir er.