Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

aðgangur fatlaðra að rafrænum skilríkjum.

178. mál
[19:24]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir mjög góða umræðu og innlegg hér í dag. Það sem ég vil almennt segja er að verkefnið sem ég stend frammi fyrir er fyrst og fremst að reyna að leysa þær áskoranir sem fylgja því að fólk sem á erfitt með að nýta sér rafræn skilríki og þessa stafrænu þróun geti tekið þátt í þessari byltingu sem er að verða. Það er fyrst og fremst mitt verkefni. Ég viðurkenni það fúslega að ég veit ekki nákvæmlega hvort öll fyrirtæki og stofnanir hafi farið í gegnum mat á því hvort þær þurfi að beita rafrænni þjónustu og því öryggi sem því fylgir eða ekki, enda heyra stafrænu málefnin undir fjármála- og efnahagsráðherra. En almennt séð vil ég bara taka undir að það er mikilvægt að við reynum að leysa úr þeim áskorunum sem hér eru að koma upp. Ég er ekki með það 100% á hreinu hvenær félagsmálaráðuneytið kom inn í þessa vinnu nákvæmlega. En ég varð þess áskynja þegar ég tók við þessum málaflokki að það var greinilega þörf á því að stíga með ákveðnum hætti inn í akkúrat þetta mál og ég gerði það. Ég held að stofnanir og fyrirtæki hafi einfaldlega ekki hugsað nægilega út í þetta. Það er ekki vegna þess að þau séu að meina eitthvað illt vegna þess að um leið og bent er á þetta eru þau öll af vilja gerð til að finna lausnir sem henta fötluðu fólki, eldra fólki og öðrum sem eiga erfitt með að nýta sér tæknina. Þannig að ég er fullur bjartsýni á að (Forseti hringir.) við getum haldið áfram að vinna með þetta verkefni af krafti og mun leggja mig fram um að það gerist eins hratt og mögulegt er.