Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

aðgengi fatlaðra stúdenta að háskólanámi.

245. mál
[19:49]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt annað en að koma hingað upp eftir þetta og hrósa hæstv. ráðherra og þakka henni fyrir þetta frumkvæði og framtak, að hafa farið og tekið þetta verkefni og sett það í ákveðinn farveg og tekið á því af festu og alvöru af því að þetta hefur allt of lengi verið til hliðar. Það virðist fínt að taka þetta með þegar er búið að fara af stað með önnur verkefni, þá er komið eftir á og þá á að redda málum, oft bara skítaredda þessum hópi og það er ekki gott. Þess vegna vil ég hrósa hæstv. ráðherra fyrir nákvæmlega að tikka í þau box sem ég var að spyrja um, m.a. Listaháskólann, að það sé farin af stað þessi rýni um hvað hægt er að gera til að ýta ekki bara undir lífsgæði þessa viðkvæma hóps heldur líka að nýta krafta allra því að við höfum öll einhverja eiginleika, einhverja kosti sem við erum ekki að leyfa að njóta sín í botn af því að kerfið heimilar það ekki. Með þessu, að mínu mati, er hæstv. ráðherra að opna kerfið sem er fagnaðarefni. Mér finnst þetta bara dásamlegt hvað þetta varðar. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra líka að fylgja eftir tímaplani, það skiptir gríðarlega miklu máli. Um leið og það er búið að ýta svona af stað þá þarf að vera eftirfylgni, vera tímaplan, ég hef upplifað það allt of oft að það vanti. Það þarf líka að vera skýr fjármögnun og ég vil fagna því sérstaklega að reiknilíkanið, sem er allt of oft skilið eftir, er tekið með í þessa vinnu samhliða síðan hópnum sem hæstv. félagsmálaráðherra er með varðandi starfs- og námstækifæri. Það er svo hárrétt sem hæstv. ráðherra sagði og ég vil taka undir, við getum gert betur. Það þarf viljann og hann er til staðar. Það þarf að taka ákvarðanirnar og það er búið að taka ákvarðanir og það er ekki hægt annað þegar svo er en að klappa fyrir viðkomandi ráðherra. Þó að við höfum ekki sömu lykla að samfélaginu þá verðum við samt að gæta þess að allir fái þá lykla sem þarf til þess að opna og það er verið að opna hér með svörum ráðherra í dag.