154. löggjafarþing — 73. fundur,  15. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[13:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil fara örfáum orðum um þetta frumvarp. Í fyrsta lagi fagna ég því að það sé komið fram og ég tel það mikilvægt fyrir íbúa í Grindavík að við vinnum hratt og örugglega með málið, við vöndum okkur auðvitað, en að við náum því fljótt og örugglega inn í þingið til samþykktar. Á fjölmennum íbúafundi í Laugardalshöll í janúar, ef ég man rétt, kom ákall frá Grindvíkingum um að ríkisvaldið myndi borga Grindvíkinga út, eins og það var orðað, þ.e. að þeir Grindvíkingar sem það kysu gætu valið að fara þá leið. Þetta frumvarp sem við ræðum hér er einmitt svar við því. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í sinni yfirferð þá er auðvitað ekki ein mælistika sem passar fyrir alla. En ég er þeirrar skoðunar, eftir að hafa lesið frumvarpið og verið í þessum þverpólitíska samráðshópi, að það passi við mjög marga sem gætu kosið að fara þessa leið.

Við í nefndinni þurfum auðvitað að fara yfir umsagnirnar mjög vandlega. Þar hefur verið ákall um að fólk sem er með hagstæð lán geti haldið þeim áfram. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir þá er gert ráð fyrir því að það fari þá í gegnum bankana en ekki í gegnum úrræðið sem slíkt og við þurfum að fara yfir það hvernig það virkar fyrir fólkið sem vill fara þá leið. Þessi matskenndu skilyrði um lögheimili skipta verulega miklu máli og það komu margar athugasemdir einmitt um það ákvæði, um lögheimili. Nefndin þarf að fara yfir það og þau dæmi sem upp kunna að koma í þeim efnum og gæta að jafnræði á milli manna. Við þurfum líka að gæta að því að fólk sem velur þessa leið verði ekki fyrir einhverjum aukakostnaði sem við sjáum ekki alveg fyrir í dag. Við þurfum aðeins að skoða það í nefndinni hvað hugsanlega gæti komið upp á á leiðinni. Líkt og fram hefur komið þarf að sjá niðurstöður úr samkomulaginu við bankana og lífeyrissjóðirnir verða að vera þarna undir líka. Svo að lokum skiptir auðvitað máli hvernig úrræðið verður fjármagnað. Það þarf að skoða áhrifin á hagkerfið og fara þá leið sem hefur minnstar aukaverkanir í þessum efnum. Síðan þurfum við að skoða dagsetningar sem gæti verið að myndu eitthvað hnikast til.

Við þingmenn Suðurkjördæmis höfum fengið alls konar ábendingar frá íbúum sem við munum auðvitað vinna með. Ein ábendingin er að fólk hefur áhyggjur af því að ef það selji húsið og svo komi upp sú staða síðar að það vilji flytja aftur í bæinn og nýta sér forkaupsréttinn, þá hafi þetta félag ekki gætt nægilega vel að viðhaldi hússins. Fólk spyr: Getum verið möguleiki fyrir mig að koma og slá blettinn og mála pallinn og þetta allt saman til að halda húsinu, sem ég er að vísu búinn að selja? En þetta er samt húsið þeirra í þeirra augum. Það væri upp á þau býtti að geta komið aftur í bæinn og keypt húsið að nýju. Við þurfum auðvitað að fara yfir þetta og auðvitað er hugsanlegt að þarna geti verið bara samskipti á milli fólksins og félagsins þó að aldrei sé hægt í svona frumvarpi að taka á öllum slíkum málum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég fagna því að frumvarpið sé komið fram og ég vona að nefndin helli sér í vinnuna núna strax í dag og yfir helgina þannig að við fáum að sjá nefndarálitið í næstu viku, með það í huga að afgreiða málið þá.