133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[21:34]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var skoðað í okkar hópi og niðurstaðan varð sú að flytja þetta frumvarp. Uppspretta málsins er í þeim lögum sem nú eru til umfjöllunar en ekki í frumvarpi um Ríkisútvarpið ohf. Eftir að hafa skoðað þessa hluti og rætt í okkar hópi teljum við eðlilegt að stíga þetta skref. Ég býst við að þetta mál fái nokkuð skjóta afgreiðslu þar sem um það ríkir breið pólitísk samstaða.

Vissulega tengjast önnur mál þessari umræðu og menn geta skoðað það í heilbrigðisnefnd hvort skoða eigi einhvern stærri hóp. Lögaðilar hafa verið nefndir í því sambandi, sá hópur er ekki tiltekinn í frumvarpinu, ég vek athygli á því, þess er ekki krafist að þeir borgi þennan nefskatt. Við töldum ekki rök til þess en heilbrigðis- og trygginganefnd getur skoðað það. Nefskatturinn er tekinn af fólki með fjármagnstekjur en ekki af lögaðilum eða fyrirtækjum. Röksemdin var sú að lögaðilar eða fyrirtæki nýttu sér ekki beint þessa þjónustu heldur fólk af holdi og blóði. Sjóðurinn byggir upp úrræði fyrir fólk sem í framhaldinu nýtir sér þjónustuna.