133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[22:21]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að vistunarmat aldraðra, þ.e. faglegt einstaklingsbundið mat á þörf aldraðra einstaklinga fyrir vistun í dvalar- eða hjúkrunarrými eða önnur úrræði verði fært frá þjónustuhópum aldraðra á hendur fárra faghópa sem sinni því hlutverki eingöngu. Markmiðið með þessu er að stuðla að auknu samræmi við gerð vistunarmats og tryggja eins og kostur er faglegar og samanburðarhæfar niðurstöður matsins um allt land. Þetta er í samræmi við tillögur Ríkisendurskoðunar í stjórnsýsluúttekt á þjónustu við aldraða frá því í október árið 2005. Í þeirri skýrslu sem við gerðum hér að umtalsefni áðan benti Ríkisendurskoðun á að vísbendingar væru um að þjónustuhópar aldraðra hefðu misgóðar forsendur til að sinna þessu hlutverki og kanna þyrfti hvort ekki ætti að fækka hópunum og veita þeim betri fræðslu í þeim aðferðum sem beitt er við að meta vistunarþörf einstaklinga.

Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi eru þjónustuhópar á landinu um 40 talsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra skipi þriggja manna nefndir fagfólks og jafnmarga varamenn með sömu menntun og aðalmenn til að sinna vistunarmati aldraðra. Nánar verður kveðið á um framkvæmd og fyrirkomulag vistunarmatsins í reglugerð en fyrirhugað er að fagnefndir sem sinna vistunarmati verði 6–9 á landinu öllu. Skynsamleg nýting dvalar- og hjúkrunarrýma ræðst að verulegu leyti af framkvæmd vistunarmats og vistun aldraðra á stofnanir. Miklu skiptir að einstaklingar fái þá þjónustu sem þeir þarfnast á því þjónustustigi sem best hentar þörfum þeirra á hverjum tíma. Stefna stjórnvalda í málefnum aldraðra er sú að styðja aldraða til að búa sjálfstæðri búsetu á eigin heimili eins lengi og unnt er eins og kveðið er á í lögum um málefni aldraðra.

Kannanir hafa sýnt að aldraðir vilja almennt búa heima eins lengi og kostur er með eða án heimaþjónustu. Engu að síður er hlutfall aldraðra á stofnunum hér á landi nokkuð hátt í samanburði við nágrannaþjóðir okkar. Kannanir sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur staðið fyrir hafa leitt í ljós að hátt hlutfall aldraðra sem búið er að meta í þörf fyrir vistun á dvalar- eða hjúkrunarheimili geti að eigin mati og að mati aðstandenda sinna búið áfram heima við óbreyttar aðstæður og enn fleiri með auknum stuðningi. Þetta bendir til þess að biðlistar gefi að einhverju leyti ranga eða villandi mynd af raunverulegri þörf fyrir stofnanarými. Langir biðlistar hafa tilhneigingu til að lengjast vegna þess að fólk telur að með því að skrá sig tímanlega á biðlista geti það tryggt sér þjónustu þegar það þarf hennar mögulega með í framtíðinni. Ég bendi aftur á það sem rætt var áðan að þar sem dregið hefur verið úr félagsþjónustu fyrir aldraða hjá sveitarfélögum hefur það skapað óöryggi sem eykur þungann á að fólk vilji fara á biðlista.

Þegar öldrunarstofnanir taka inn nýja vistmenn ber þeim að láta þá ganga fyrir sem lengst hafa beðið með brýna eða mjög brýna þörf fyrir vistun samkvæmt vistunarmati. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að vistunarmat sé unnið á eins faglegan og samræmdan hátt og kostur er til að tryggja að þeir fái hjúkrunarrými sem helst þurfa á því úrræði að halda og að enginn sé vistaður á stofnun á röngum forsendum án þess að þörf eða vilji sé fyrir hendi.

Samkvæmt frumvarpinu mun ríkissjóður að öllu leyti taka á sig kostnað vegna vistunarmats en gert er ráð fyrir að meðalverð hvers mats verði á bilinu 35–40 þús. kr. eða um 60–70 millj. kr. á ári miðað við sama fjölda mata og gerð hafa verið að undanförnu. Er þá get ráð fyrir fækkun matsnefnda og auknu hagræði sem felst í því að hver nefnd vinni mun fleiri möt. Miðað er við að breytingin taki gildi 1. janúar 2008. Með þessu er verið að taka að hluta til kostnað af sveitarfélögunum sem mun þá lenda á ríkinu í stað þeirra.

Virðulegi forseti. Ég tel brýnt að frumvarp þetta hljóti afgreiðslu á vorþingi svo unnt sé að hefja undirbúning að þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér. Því leyfi ég mér að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.