135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:56]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að með breytingartillögu sinni væri meiri hluti allsherjarnefndar að bíta höfuðið af skömminni. Ég spyr: Hvaða skömm í málinu er hv. þm. Árni Þór Sigurðsson að tala um? Jú, það er sú skömm að heimilt verði að ráða aðstoðarmenn sem ég las hér upp að þingflokkurinn styður og formaður flokksins styður og hefur lagt til í tvígang. Það er skömmin.

Það sem mér finnst kannski skömm í málinu, (Gripið fram í.) ef það má tala um skömm — ég vil nú helst ekki tala um skömm í þessu efni — en það er niðurstaðan eftir allt sem komið hefur fram um stuðning formanns Vinstri grænna og þingmanna hans við þetta mál að þá endar nefndarálit fulltrúa flokksins svona, með leyfi forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð getur ekki staðið að afgreiðslu málsins og mun sitja hjá ...“

Hvaða haldreipi var það sem menn gátu nú fundið til þess að þurfa ekki að greiða atkvæði með þessu? Jú, það var jafnræðisregla stjórnarskrárinnar. Menn hafa ekki mikið haft áhyggjur af henni til þessa sem hafa lagt þetta til og ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi athugað (Gripið fram í.) það mál eins og allir aðrir á sínum tíma.