135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:22]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að vekja athygli á þeirri mismunun sem felst í ójöfnu vægi atkvæða í landinu. Ég tel það atriði sem þingmenn ættu að huga að og þótt það snerti ekki efni þessa máls er það engu að síður viðfangsefni sem þarf að vinna í á næstu árum.

Það er reyndar rétt að rifja upp að þegar síðasta kjördæmabreyting var ákveðin árið 1999, sem markar að nokkru leyti upphaf málsins sem við ræðum um í dag, var stigið allstórt skref í átt að því að jafna vægi atkvæða miðað við það sem áður var. Mesti munur milli kjördæma í atkvæðavægi er nú 1:2 í staðinn fyrir að vera 1:4 eða jafnvel 1:4,4 eins og það var fyrir þann tíma. Þar var um að ræða verulegt skref í rétta átt en það breytir ekki því að það er þörf á að huga að þessu til frambúðar.

Vegna þess að hv. þm. Mörður Árnason spurði mig um afstöðu allsherjarnefndar til framhalds málsins þá geri ég ekki annað en vísa til þess sem segir í nefndarálitinu. Allsherjarnefnd getur þess að meiri hluti nefndarinnar leggi áherslu á að boðað hafi verið — og vísar þar í orð forseta þingsins — að stíga fyrstu skrefin í þá átt að auka aðstoð við þingmenn almennt og að meiri hlutinn telji að sterk rök hnígi í þá átt að útvíkka fyrirkomulagið frekar, m.a. að aukin aðstoð nái til allra þingmanna.

Það liggur hins vegar ekki fyrir af hálfu meiri hlutans og var ekki farið í þá útfærslu að gera upp á milli einstakra útfærsluatriða í þessu sambandi. Áherslan var lögð á almenn sjónarmið í því sambandi og framhaldi málsins vísað til forsætisnefndar.

Það snertir hins vegar ekki efni þessa frumvarps vegna þess að frumvarpstextinn sem slíkur (Forseti hringir.) heimilar aðstoðina en segir ekki til um útfærsluna. Það er forsætisnefnd almennt látið eftir.