135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:58]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög athyglisvert sem hefur þó komið fram í umræðum um þetta mál og ekki síst það sem hv. þm. Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar, hafði fram að færa. Ég skil það þannig að þingmennirnir sem mynda meiri hlutann, hv. þm. Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir og Birgir Ármannsson, séu sammála um að nauðsyn beri til, á grundvelli þess frumvarps sem hér um ræðir, að sú aðstoð sem verið er að tala um nái til þingmanna jafnt.

Ég get að sjálfsögðu ekki frekar en hv. þm. Birgir Ármannsson sagt fyrir um óræða framtíð. Það verður þó að líta þannig á að það sé vilji þessara þriggja þingmanna sem ég hef nafngreint að aðstaða þingmanna verði jöfnuð miðað við næsta fjárhagsár, eins og kemur fram og raunar er miðað við í þeirri breytingartillögu sem ég legg til. Miðað við það sem hv. þm. Ellert B. Schram sagði í ræðu sinni áðan þá væri eðlilegt að hann styddi ákvæði til bráðabirgða sem ég legg til. Þar er hreinlega gengið út frá því að sú meginregla sem hv. þm. Ellert B. Schram lýsti svo vel í ræðu sinni áðan gildi en undantekningin sem sagt frá því að jafnræði sé með þingmönnum sé bara þetta fjárhagsár, vegna þess að til þess er takmörkuð fjárveiting. En frá og með næsta fjárhagsári taki þetta til allra þingmanna. Ég skil það þannig að það sé vilji meiri hluta allsherjarnefndar að þannig skuli það vera.