135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[18:26]
Hlusta

Frsm. heilbrn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tveimur breytingartillögum milli 2. og 3. umr. varðandi frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings á útgáfu starfsleyfa til landlæknis. Annars vegar er það breytingartillaga frá heilbrigðisnefnd sem varðar gildistöku laganna, að hún verði 1. apríl í stað 1. mars. Þessi breyting er gerð að tilmælum þeirra stofnana sem málið varðar sem óskuðu eftir meira svigrúmi til undirbúnings á þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér, þ.e. við flutning á útgáfu starfsleyfa frá heilbrigðisráðuneyti til landlæknis.

Breytingartillagan varðar ýmsar greinar frumvarpsins. Þetta varðar lög um hinar ýmsu heilbrigðisstéttir sem eru nokkuð margar talsins. Þetta á við um nokkuð margar greinar en snýst um að breyta gildistökunni úr 1. mars 2008 í 1. apríl 2008 og kemur þá inn í viðeigandi grein.

Hin breytingartillagan er á þskj. 731 og er frá formanni heilbrigðisnefndar, þ.e. þeirri sem hér stendur. Í þeirri breytingartillögu eru ekki neinar efnislegar breytingar en hún er lögð fram til að fullnægja lagatæknilegum atriðum að því er varðar uppsetningu lagatexta og tilvísun í lagagreinar og hins vegar tilvísun í ráðherra við þær breytingar sem frumvarpið felur í sér, að færa verkefni frá heilbrigðisráðherra til landlæknis.

Fleiri orð mun ég ekki hafa um þessar breytingartillögur en þær hafa verið lagðar fram.