138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég ætti sjálf að vita að hæstv. heilbrigðisráðherra var hér, ég átti orðastað við hana á mánudaginn var, að sjálfsögðu átti ég við hæstv. fjármálaráðherra og sagði það áðan. En það er fínt að fara út í að endurskoða þennan lið. Ég veit að margar tillögur þar að lútandi hafa verið ræddar á fundum þingflokksformanna með forseta þingsins.

Til að henda hugmynd í þann pott held ég að það sé mikil þörf á því að lengja þennan tíma. Það er líka mikil þörf á því að fjölga fyrirspurnatímum. Hæstv. fjármálaráðherra talaði um að einhver leikrit væru sett á svið. Þá verð ég að segja að fleiri leikrit eru sett upp á þessu sviði með fleiri leikendum en stjórnarandstöðunni vegna þess að í þessum örfáu fyrirspurnatímum sem eru hér spyrja stjórnarþingmenn ráðherra sína fyrir fram ákveðinna og undirbúinna spurninga sem verða til þess að sá knappi tími sem við stjórnarandstæðingar höfum til að kalla eftir svörum frá framkvæmdarvaldinu (Forseti hringir.) fer forgörðum. Ég vil leggja þessa hugmynd í pottinn.