138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

raforka til garðyrkjubænda.

148. mál
[15:32]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir til hv. fyrirspyrjanda. Garðyrkjan er mjög mikilvæg grein í íslenskum landbúnaði og 20–30% af rekstrarkostnaði hennar er rafmagn. Ég tek undir orð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um manneldissjónarmið og annað slíkt í tengslum við þetta og enn fremur skiptir fæðuöryggi þarna miklu máli. Í hnotskurn snýst óánægja þeirra að mestu um dreifinguna og það er hún sem hefur hækkað hvað mest og þess vegna er mjög mikilvægt að garðyrkjubændur fáist skilgreindir sem stórnotendur því að hver meðalgróðurstöð, eða vel stór gróðurstöð, nýtir jafnmikið rafmagn og á við 1.900 íbúa. Þeir hafa verið að kanna möguleika á að koma upp eigin dreifikerfi og það hefur sýnt sig að það er tiltölulega hagkvæmt fyrir þá miðað við það verð sem er í gangi. Ég hvet því til þess að þeir verði skilgreindir sem stórnotendur og það hið fyrsta.