141. löggjafarþing — 73. fundur,  28. jan. 2013.

útgáfa og meðferð rafeyris.

216. mál
[17:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við Íslendingar, sem og allur heimurinn, höfum upplifað alveg gífurlega byltingu í bankaviðskiptum. Það var einu sinni sú tíð að hér voru bankaútibú með gjaldkerum og þangað fór fólk alltaf um mánaðamót að borga reikningana sína o.s.frv. Þetta er nánast alveg horfið. Nú vinna menn heima hjá sér á kvöldin eða jafnvel í vinnunni, ef gefst hlé, og millifæra og fleira í bankanum sínum. Þessi þróun er mjög hröð og mjög ör. Það liggur við að hvert árið breyti stöðunni til hins betra, finnst mér. Auðvitað koma upp ákveðnar hættur en þægindin eru ótrúleg. Þægindi eru líka fólgin í því að viðskiptavinurinn, þ.e. ég, er farinn að vinna fyrir bankann við að millifæra og slíkt. Þar af leiðandi verður reksturinn miklu ódýrari.

Það sem við ræðum hér í dag um rafeyri er framhald af þessari þróun. Þess vegna finnst mér þetta mjög spennandi mál, þetta er eiginlega morgundagurinn. Við erum þó enn með seðla í veskinu okkar. Við borgum reyndar mikið með debet- og kreditkortum og seðlarnir hafa sífellt minna og minna vægi, en við viljum gjarnan borga vissar smotterísupphæðir með seðlum í stað þess að fá þær inn á yfirlitið yfir debetkortin eða kreditkortin þannig að við getum losnað við slíkar færslur — þegar maður fer til rakara, tekur leigubíl eða kaupir kleinu í bakaríi eða eitthvað svoleiðis. Rafeyririnn er akkúrat til þess. Í stað þess að vera með seðla í veskinu er maður með kort sem 20 þús. kr. eru til dæmis á í upphafi, svo tappar maður bara af því og getur jafnvel séð jafnóðum þegar maður borgar hver staðan var og hvað hún hefur lækkað mikið og hver hún er. Þannig getur maður fylgst með því sem er á kortinu. Svo þegar það er tómt getur maður hugsanlega endurhlaðið það, fengið viðbót gegnum síma. Þetta mun hugsanlega leysa okkur undan seðlum í veskinu og gera það að verkum að erfiðara verður að ræna menn, alla vega seðlunum. Menn geta svo sem rænt rafeyriskorti en það má setja inn á það ákveðið lykilorð þannig að tryggt sé að það verði ekki misnotað.

Þetta mál er mjög áhugavert. Þó að hér séu enn engin starfandi rafeyrisfyrirtæki og við séum dálítið aftarlega á merinni í þeim efnum þá hef ég fulla trú á því að innan ekki margra mánaða, frú forseti, verði þau orðin nokkur sem við getum lagt pening inn á og tappað af í smágreiðslum eins og þegar maður fer í strætó, borgar bílastæðagjöld, hundrað kall þar, eða hvað sem er, og menn geti borgað með einföldum hætti. Ég hugsa að þetta muni losa okkur undan því oki að vera með seðla sem krumpast í veskinu.