143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þessi umræða um landbúnaðarkerfið er nefnilega áhugaverð vegna þess að við sem höfum talað fyrir því að við ættum að ganga inn í staðinn fyrir að vera svona — hvað eigum við að segja — aukaaðilar að Evrópusambandinu og þiggja löggjöf án þess að hafa bein áhrif á hana, höfum stundum verið úthrópuð fyrir það að ætla að ganga frá atvinnuvegum í landinu, til dæmis landbúnaðinum. Ég frábið mér algjörlega slíkan málflutning vegna þess að ég tel að þar séum við ekki bara að horfa á ný tækifæri fyrir íslenskan landbúnað til útflutnings heldur sé þetta líka risastórt neytendamál. Ég sakna þess að við tökum slíka umræðu án upphrópana. Þó að maður vilji breyta kerfi þýðir það ekki að maður sé á móti því sem fyrir er, heldur vilji maður eingöngu líta á ný sjónarmið og ræða þau og velta þeim upp. (Forseti hringir.) Ég sakna þess að sjá ekki fleiri stjórnarliða í salnum sem mundu taka þátt í umræðunni á þeim nótum (Forseti hringir.) þannig að við séum að ræða þetta á réttum grunni (Forseti hringir.) en ekki í skotgröfum.