146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

viðbrögð við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA um löggjöf um leyfi til leigubílaaksturs.

369. mál
[11:06]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er mjög breytt umhverfi sem við lifum við í dag og búum við heldur en var þegar þessi löggjöf var sett á sínum tíma. Þar hafa komið fram athugasemdir, eins og fram kemur frá Eftirlitsstofnun EFTA, um norska löggjöf um leigubílaakstur og þær fjöldatakmarkanir sem þar eru. Við erum svo sem í sambærilegu umhverfi og Norðmenn og reyndar aðrar Norðurlandaþjóðir. Eftirlitsstofnun EFTA hefur að eigin frumkvæði hafið skoðun á þeim lögum og reglum sem gilda um leigubifreiðaakstur hér á landi og ráðuneytið hefur átt í bréfasamskiptum við stofnunina í tengslum við þá skoðun. Það er ótímabært í sjálfu sér að fullyrða að svo stöddu hvaða áhrif niðurstaða þeirrar skoðunar mun hafa og hvort og þá hvaða viðbrögð hún muni kalla á af hálfu íslenskra stjórnvalda.

ESA gerði fyrst og fremst þrjár athugasemdir við leigubifreiðalöggjöf Norðmanna. Í fyrsta lagi taldi hún ólögmæta takmörkun felast í fyrir fram ákveðnum fjölda atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs. Í öðru lagi taldi stofnunin ólögmæta takmörkun felast í því að reglur um úthlutun leyfa væru ekki fyrirsjáanlegar, hlutlægar og lausar við mismunun. Úthlutun leyfa þar í landi byggist á forgangsreglum byggðum á starfsreynslu og mati stjórnvalda þegar forgangsreglum sleppir. Í þriðja lagi gerði stofnunin athugasemd við það að leyfishafar væru skyldaðir til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð.

Ég veit að Danir og Finnar hafa hafið undirbúning að breytingum á regluverki sínu varðandi leigubifreiðar en kerfum landanna svipar nokkuð, eins og ég sagði áður, til kerfis okkar hér á Íslandi. Ég held að ljóst sé við breyttar aðstæður að við munum þurfa að endurskoða þessar reglur í framtíðinni, en það eru ákveðnir þættir sem við verðum þá að hafa þar sem grundvallaratriði að mínu mati. Við þurfum auðvitað að tryggja ákveðna fjölbreytni í rekstri, tryggja að þjónustan sé fyrir hendi og aðgengileg. Við þurfum líka að hafa í huga að tryggja öryggi farþega. Ég held að gríðarlega mikilvægt sé að haft sé að leiðarljósi við breytta löggjöf að við tryggjum öryggi farþega, sem er að vissu leyti ákveðin trygging í núverandi kerfi.

Við höfum séð t.d. breytingar sem hafa orðið á umhverfinu hér á landi. Þetta birtist okkur m.a. á fésbókinni svokölluðu þar sem er síða sem ég man ekki hvort heitir Skutlarar eða eitthvað svoleiðis. Þar er verið að bjóða fram þessa þjónustu og reyndar margt annað í leiðinni. Þetta tel ég ekki vera heppilegt fyrirkomulag. Þetta er algerlega eftirlitslaust. Þarna eiga sér stað viðskipti sem við almennt teljum ólögmæt. En þetta er samt sem áður tákn um breytta tíma. Við sem stjórnvöld hljótum að þurfa að endurskoða reglurnar í samræmi við það, skoða hvaða breytingar við getum gert með þau atriði í huga sem ég kom inn á áðan.