146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

skuldastaða heimilanna.

521. mál
[12:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Allt síðasta kjörtímabil heyrðum við ýmislegt um hina svokölluðu leiðréttingu. Nú berst sú leiðrétting af og til í tal í ræðustól Alþingis af einni eða annarri ástæðu og fólk segir ýmist allt frábært um leiðréttinguna eða finnur henni allt til foráttu. Ég nenni ekki þessum skotgrafaleik og spyr því einfaldlega um töluleg gögn. Hvaða áhrif hafði leiðréttingin á skuldastöðu heimilanna? Ég get ekki séð annað en að hækkandi húsnæðisverð sé það sem hefur aðallega haft áhrif á skuldastöðu heimilanna á undanförnum árum. Mér leikur því forvitni á að vita hvað er satt og spyr því ráðherra í fyrsta lagi:

Hvað telur ráðherra einkum skýra batnandi skuldastöðu heimilanna annað en hækkun húsnæðisverðs síðustu árin? Ég bið um svar sundurliðað eftir landshlutum en a.m.k. í heildina.

Í öðru lagi: Hvað má gera ráð fyrir að leiðréttingin vegi þungt í batnandi skuldastöðu heimilanna? Ég bið aftur um svar sundurliðað eftir landshlutum, en heildin er að sjálfsögðu nauðsynleg.

Miðað við svar sem ég fékk við svipaðri fyrirspurn vantaði nákvæmari svör við þessum atriðum og því spyr ég aftur. En þá var vitað hversu mikið var greitt í leiðréttinguna. Árið 2014 voru það 35,7 milljarðar kr. og það ár var skuldahlutfall heimilanna 43%. Miðað við heildareignir og heildarskuldir, er þá ekki lækkun á skuldahlutfallinu 0,8% vegna leiðréttingarinnar? Hlutfallið er augljóslega lægra árin 2015 og 2016 vegna þess að leiðréttingarupphæðin er mun lægri en heildaráhrifin eru í kringum 1,5% lægra skuldahlutfall ef ég reikna þetta rétt.

Hér má spyrja um tvennt, annars vegar hvort það sé eitthvað annað en hækkun húsnæðisverðs sem útskýri líka lækkun á skuldahlutfalli, eins og leiðréttingin sem gerir, og hins vegar hvort 1,5% skuldahlutfallslækkun standi undir því lofi eða háði sem að henni er beint. Ég sjálfur ætla ekki að leggja neinn dóm á seinni spurninguna en ég bið fólk bara að hafa tölurnar til hliðsjónar þegar það velur lýsingarorð. Þá vitum við hin a.m.k. gildið á bak við lýsingarorðið sem er valið, hvort sem það er frábært eða hræðilegt þá er talan sú sama. Markmið mitt er ekki að gera lítið eða mikið úr leiðréttingunni sem slíkri, hver króna skiptir máli fyrir þann sem fékk leiðréttingu, það má ekki gera lítið úr því, en það er hægt að deila um aðferðafræðina við útdeilinguna. Það er hægt að segja að ekki hafi allir sem áttu það skilið fengið leiðréttingu og að sumir sem fengu leiðréttingu hafi ekki átt það skilið. En það er ekki hægt að deila um það að krónurnar skipta máli fyrir þá sem þær fengu.

Í fyrri fyrirspurn minni spurði ég sérstaklega hversu mikið vægi leiðréttingarinnar væri í batnandi skuldastöðu heimilanna. Mér leikur forvitni á að vita af hverju þeirri spurningu var ekki svarað og hvers vegna ég þarf að reikna það út sjálfur með öllum þeim möguleikum á mistökum sem það getur leitt til. Því langar mig að beina þeirri spurningu sérstaklega beint til ráðherra við þetta tækifæri. Þar sem ég nenni ekki að hafa þetta sem pólitískt bitbein næstu áratuga, hversu æðisleg eða hræðileg leiðréttingin var, vil ég einfaldlega fá að vita hver áhrif hennar eru á skuldastöðu heimilanna. Fyrst það tókst ekki í fyrstu fyrirspurninni spyr ég aftur og vonast eftir svari í þetta sinn.