149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

kolefnisspor innlends og innflutts grænmetis.

[10:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er hrædd um að hæstv. ráðherra hafi eitthvað misskilið stefnu Samfylkingarinnar. Við höfum ekki verið á móti því að styrkja innlenda framleiðslu þótt við höfum gagnrýnt þá aðferð og þær leiðir sem stjórnvöld hafa farið í þeim efnum.

Telur hæstv. ráðherra ekki nauðsynlegt út frá umhverfissjónarmiðum að ýta undir íslenska grænmetisframleiðslu? Hefur hæstv. ráðherra ekki velt fyrir sér hvernig það megi gera, hvort megi setja styrki til kaupa á betri búnaði, sparneytnari lýsingu, styrki til að hækka gróðurhúsin sem fyrir eru svo afköstin verði meiri o.s.frv. og betra öryggi um umgjörð varðandi styrki vegna raforkuflutninga?

Síðan er annað stórt vandamál sem ég held að hæstv. ráðherra ætti að gefa gaum. Íslenskir grænmetisbændur eru að eldast og það er ekki mikil nýliðun. (Forseti hringir.) Hefur hæstv. ráðherra velt fyrir sér hvernig megi byggja kynslóðabrú yfir til yngri bænda?