149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:59]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Jú, jú, maður er kominn aftur í bæjarstjórn Akureyrar. Þetta hljómar allt kunnuglega, ég hef heyrt það í mörg ár, í mörgum ræðum, að umræða um Reykjavíkurflugvöll snúist um þéttingu byggðar og fátt annað. Ég er bara að tala um að tengja saman landið í heild sinni. Þessi tillaga og sá málflutningur sem maður hefur haft í mörg ár í þessu efni snýst um að tryggja stöðu vallarins. Það er nú aldeilis sáttartónn sem kemur fram þegar talað er um þangað til jafn góður eða betri kostur sé kominn, þ.e. að tryggja þessa stöðu a.m.k. þangað til, þannig að ekki fari með þeim hætti sem gert hefur verið á undanförnum árum þar sem stöðugt er verið að höggva í, samanber þriðju brautina, neyðarbrautina svokölluðu, 11 hektarana við Skerjafjörðinn og allt sem því fylgdi, allt sem búið er að gera án þess að halda öryggishagsmuni samfélagsins í heiðri. Það er gríðarlega mikilvægt í þessu ferli.

Þess vegna erum við hv. þingmaður greinilega ekki á sama stað í umræðunni í þessu máli. Ég er að tala um að verja stöðu vallarins þangað til jafn góður eða betri kostur er kominn, í staðinn fyrir að tala um þéttingu byggðar eða aðra slíka hluti í sömu andrá, eins og hv. þingmaður er að gera. Þar er himinn og haf á milli.

Verið er að skoða ákveðna kosti í dag, kosti sem virðast vera miklu dýrari en maður hefur heyrt áður og nýjustu tölur sem maður hefur heyrt, eins og varðandi Hvassahraunið. Allt í góðu.

Ég er fyrir ferðaþjónustuna. Í dag er innanlandsflugið þannig að um 15–20% af þeim sem það nota eru erlendir ferðamenn. Eigum við þá að hætta að fljúga bara fyrir 10–15% af erlendum ferðamönnum og slá niður þá Íslendinga sem þurfa að nýta sér flugið frá degi til dags?

Loftslagsmálin hafa verið rædd. Það eru minni áhrif á loftslagið með því að hafa núverandi flug eins og það er en að senda fólk t.d. með bíl. Það hefur komið fram í umræðunni, það kom fram í umræðu um samgönguáætlun og margoft áður í þessari umræðu. Þar erum við á réttri leið, þ.e. að halda núverandi stöðu vallarins, ef þetta á að snúast um loftslagsmálin.