149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi atkvæðagreiðsluna 2001 er rétt að hafa í huga að þar var ekki farið að leikreglum eins og upprunalega var lagt af stað með. Færri tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu en gert var ráð fyrir svo hún yrði bindandi eða ráðgefandi. Menn breyttu leikreglum eftir á. Atkvæði féllu nánast á jöfnu. Ég held að 200–300 atkvæði hafi borið á milli. En fyrst og fremst þetta: Það var ekki farið eftir þeim leikreglum sem menn fóru af stað með í byrjun.

Það er kannski erfitt að koma því að í örstuttu andsvari hvernig þau mál standa.

Grundvallarforsenda í málinu er að í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir því að árið 2022, eftir þrjú ár, verði norður/suður-brautinni lokað. Saga málsins er með þeim hætti, því að við höfum verið að fást við þetta mál í töluverðan tíma: Er hægt að treysta því að Reykjavíkurborg haldi í þetta? Eins og margir hv. þingmenn hafa talað um er eins og það sé einhver sátt um að hann fái að vera þarna en í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar — og því hefur ekki verið breytt, það eru þrjú ár í þetta — er gert ráð fyrir því að norður/suður-brautin fari.

Dómurinn er frá 2016 og brautinni var lokað, neyðarbrautinni. Það er búið að gera. Það hefur verið framkvæmt. Unnið er eftir niðurstöðu Rögnunefndarinnar. Það er rangt hjá hv. þingmanni að segja að ekki sé verið að gera það. Verið er að skoða Hvassahraun og möguleikana þar.

Er hv. þingmaður til í að skoða það á þingi að við förum svipaða leið og aðrar Evrópuþjóðir gera varðandi sín öryggismál, að leggja helstu og mikilvægustu öryggishagsmuni samfélags undir skipulagsvald ríkisins þannig að einstök sveitarfélög geti ekki farið fram gegn helstu öryggishagsmunum?

Þetta er reynsla sem hefur verið að byggjast upp. Sá punktur var framkvæmdur mjög víða í Evrópu fyrir 20–30 árum. (Forseti hringir.) Við erum allt annars staðar en aðrar Evrópuþjóðir, sérstaklega í Norður-Evrópu, varðandi þá öryggishagsmuni. Það er stór og mikill punktur sem við verðum að fara að takast á við.