149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvar. Ég heyrði hv. þingmann segja að þetta væri sáttatillaga um að leyfa flugvellinum að vera áfram á meðan fundinn væri (NTF: Þar til jafn góður eða betri kostur finnst.) jafn góður eða betri kostur, en þessi tillaga er ekkert um það. (Gripið fram í.) Tillagan er um að spyrja þjóðina. Hvað ætlið þið að gera ef þjóðin segir nei? Ætlið þið þá ekki að fara eftir því? Tillagan er ekkert um það, hún snýst um að spyrja þjóðina. Þið eruð að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu, þið eruð ekki að leggja til að við leyfum flugvellinum að vera. Þið leggið fram spurningu. Þið getið ekki ákveðið niðurstöðuna fyrr en spurningin hefur verið borin fram og svörin komin. Við skulum vera alveg heiðarleg með það hvað við erum að leggja fram hérna. Er þetta þingsályktunartillaga um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og lúta henni eða ætla flutningsmenn að segja ef meiri hluti þjóðarinnar segir nei, Reykjavíkurflugvöllur á að fara: Ja, þetta er bara ráðgefandi, við tökum ekkert mark á því? Erum við að fara að horfa á það enn einu sinni hjá hinum ágætu flokkum Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Miðflokknum og Vinstri grænum? Er það þannig? Við skulum hafa þetta alveg kristaltært.