149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég hef svolítið gaman af þessari þingsályktunartillögu. Mér finnst hún nefnilega fullkomin markleysa. Ég skil eiginlega ekki tilganginn með því að spyrja þjóðina jafn augljósrar spurningar: Flugvöllur í Vatnsmýri skal vera í Vatnsmýri þangað til hann verður fluttur annað. Ég skil ekki tilganginn með því að leggja slíka spurningu fyrir þjóðina. Þið verðið að fyrirgefa mér, en það sýnist mér vera innihald spurningarinnar. Það gefur eiginlega augaleið að enginn leggur til að færa völlinn fyrr en það liggur fyrir hvert hann eigi að fara. Reykjavíkurborg er ekkert að hóta því að loka vellinum þótt tilgreindar hafi verið einhverjar tímasetningar í því hvenær stefnt skuli að því o.s.frv.

Mér finnst þetta svolítið kómísk þingsályktunartillaga og get ekki annað en tekið undir með öðrum þingmönnum sem hafa talað í þá veru að kannski væri nær lagi, af því að hér er þingsályktunartillaga sem er borin uppi af þingmönnum stjórnarmeirihluta, að talsverðum hluta alla vega, að einbeita sér frekar að því að reyna að ná lendingu í málið í viðræðum milli ríkisins og sveitarfélagsins Reykjavíkur. Þar hafa stjórnvöld kerfisbundið dregið lappirnar á undanförnum árum og neitað í raun og veru að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélagsins um eigin skipulagsmál. Það er auðvitað hið augljósa í málinu.

Reykvíkingar og Reykjavíkurborg eiga líka umtalsverða hagsmuni undir. Það er ekki hægt að þvinga borgina til lengdar til að halda flugvelli í hjarta borgarinnar, þar sem borgin sjálf vill ekki hafa völlinn, þar sem okkur kæmi aldrei til hugar að setja völl niður ef við værum að velja innanlandsflugvelli stað í dag, þar sem borgarbúar sjálfir hafa lýst skoðun sinni á því að völlurinn eigi að fara. Ágætt er að hafa í huga, þó að langt sé um liðið síðan sú atkvæðagreiðsla fór fram, að borgarbúar hafa ítrekað kosið til meiri hluta í borginni flokka sem eru því fylgjandi að völlurinn fari.

Mér finnst líka svolítið gaman að sjá þingmenn, sem skilgreina sig nú margir hverjir til hægri í stjórnmálunum, í fyrsta lagi bruðla með almannafé því að það kostar sennilega einhvers staðar á bilinu 300–400 millj. kr. að halda þjóðaratkvæðagreiðslu sem þessa þar sem spurt er spurningar þar sem svarið liggur fyrir og þarf varla að eyða 300–400 millj. kr. í að fá svar við. Um leið er í raun verið að brjóta gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélags því að Alþingi er hér að vasast í málefnum borgarinnar með beinum hætti. Það verður ekki litið á þetta mál öðruvísi. Það hefur engan annan tilgang. Þegar greinargerðin er lesin, sem er ekki alveg í góðu samræmi við þá spurningu sem spyrja á, er augljóst að flutningsmenn tillögunnar vilja stöðva Reykjavíkurborg í að flytja völlinn. Það er hinn raunverulegi vilji og kemur svo sem ekkert á óvart, flestir þessara þingmanna hafa löngum lýst þeirri skoðun sinni að það eigi að þvinga Reykjavíkurborg til að halda vellinum þar sem hann er, það sé einhvers konar höfuðborgarleg skylda. Ég hefði reyndar gaman af því að sjá hvar skilgreint er í lögum hverjar skyldur höfuðborgar eru. Ríkið hefur vissulega skyldur gagnvart landsmönnum öllum en Reykjavík hefur fyrst og fremst skyldur gagnvart borgarbúum sínum, eins og aðrar sveitarstjórnir, alla vega lögum samkvæmt, þó að við getum svo sem sagt að hlutverk borgarinnar sé stærra en svo. Ég veit ekki betur en að borgin axli það hlutverk sitt af mikilli ábyrgð með mikilli og blómlegri menningarstarfsemi og öðru slíku sem nýtist landsmönnum öllum.

Mér finnst ágætt að rifja upp 3. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem segir í 4. mgr. að „afskipti annarra stjórnvalda af málefnum sveitarfélaga taki ávallt mið af sjálfstjórn sveitarfélaga samkvæmt stjórnarskrá og sáttmála Evrópuráðsins um sjálfstjórn sveitarfélaga“. Hér er þingið beint að reyna að vasast í þeirri sjálfstjórn sveitarfélagsins sem varin er með lögum sem sett eru á Alþingi, sem varin er með stjórnarskrá ef út í það er farið.

Það er enginn tilgangur í því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurningin er þannig að það er eiginlega bara hægt að svara henni á einn veg og svarið liggur í augum uppi. Tilgangurinn með spurningunni er einhver allt annar, hann er að reyna á einhvern hátt að þvinga Reykjavíkurborg til að færa völlinn ekki. Það eru engin lagaleg úrræði önnur en að fara þá í einhvers konar eignarnám á borgarlandi eða hvað það er sem þingmenn vilja gera til að tryggja skoðunum sínum framgang.

Þetta er markleysa og við ættum að spara 300–400 milljónir með því að fella þessa þingsályktunartillögu og leggja í staðinn áherslu á að stjórnvöld einbeiti sér að því að ná sátt við Reykjavíkurborg um það hvert og hvernig Reykjavíkurflugvöllur verður fluttur. Það er ítrekaður vilji borgarinnar og borgarbúa að völlurinn fari á endanum.