149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið, ég ætlaði að sitja á mér og taka ekki til máls, en það eru þó nokkur atriði sem mig langar að koma á framfæri.

Ég held að það hafi komið fram í ræðu áðan að eingöngu þingmenn landsbyggðarinnar væru að leggja þetta frumvarp fram, en ég sé alla vega einn þingmann annars Reykjavíkurkjördæmisins og tvo þingmenn Suðvesturkjördæmis, svo því sé til haga haldið.

Ég er þingmaður Suðvesturkjördæmis og er ekki á þingsályktunartillögunni. Ég hef samt fullan skilning á því að tillagan sé fram komin. Ef ég væri spurð hvort ég vildi að flugvöllur og miðstöð innanlandsflugs yrði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafn góður eða betri kostur væri tilbúinn til notkunar myndi ég hiklaust svara því játandi.

Ég myndi gera það sama ef rætt væri um miðstöð sjúkraflugs, en ég verð reyndar að viðurkenna að ég set smáspurningarmerki við miðstöð kennsluflugs.

Að því sögðu er það oft þannig í skipulagsmálum að ef maður væri með autt blað myndi maður gera hlutina öðruvísi. Ég hygg að staðsetning Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni sé mjög góð að mörgu leyti, ef ekki væri búið að skipuleggja allt í kringum hann og ef Reykjavíkurborg hefði í gegnum tíðina ekki gert ráð fyrir að flugvöllurinn færi.

Mig langar þó að segja að það að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um atriði er varðar skipulagsvald sveitarfélaga er í mínum huga ákveðin árás á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og skipulagsvald þeirra. En að því sögðu verð ég líka að segja: Við erum trekk í trekk að lenda í ákveðnum vandamálum hvað varðar mismunandi sýn og skoðanir á skipulagsmálum. Við erum að lenda í vandræðum með að tengja rafmagn við rafmagnsnotendur, þ.e. hvað varðar lagningu lína og annað. Við erum að lenda í vandræðum með vegasamgöngur og Reykjavíkurflugvallarmálið hefur verið mál sem við höfum rifist um, ég held að hægt væri að segja svo áratugum skiptir.

Því langar mig að varpa því fram, sem ég hef gert áður, hvort ekki sé tímabært að landsskipulag, sem afgreitt er frá þinginu, taki mið af ákveðnum grunninnviðum eins og til að mynda hringvegi, lagningu rafmagns og mikilvægi veitna, og þá jafnframt út frá mikilvægum innviðum eins og höfnum og flugvöllum.

Með því væri að einhverju leyti hægt að segja að verið væri að takmarka skipulagsvald sveitarfélaga en þá væri ekki verið að taka einstök verkefni út heldur væri verið að taka svona einhverja heildarsýn, setja hana niður í einhvers konar samkomulag, sem ég efast ekki um að yrði örugglega mikið deilt um og allir yrðu aldrei fullkomlega sáttir um. Skipulagsvald sveitarfélaga myndi svo virka í kringum það allt.

Þetta er eitthvað sem mig langaði að varpa hérna fram í umræðuna, sem annars hefur verið mjög fjörug og skemmtileg um mál sem þjóðin hefur rifist um í áratugi og er löngu orðið tímabært að finna á því einhverja lausn.

Ég treysti því að lausnin sé sú að flugvöllurinn hverfi ekki úr Vatnsmýrinni fyrr en annar jafn góður eða betri kostur komi til.