150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:23]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fjármálaráðherra framsöguna. Við í Viðreisn styðjum að sjálfsögðu þetta mál en um leið áttum við okkur á því að þetta er bráðabirgðaredding til að bjarga gjalddaga sem er núna á mánudaginn. Ég ætla ekki að vera að eyða tíma þingsins mjög mikið á þessu stigi umræðunnar, við eigum eftir að taka þetta til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. En það sem ég velti fyrir mér er tvennt. Í fyrsta lagi, í ljósi þess sem kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra, þá hefur einmitt fjöldi ríkisstjórna í vikunni verið að kynna aðgerðir sínar, útfærðar aðgerðaáætlanir, til að bregðast við þeirri fordæmalausu stöðu sem heimsbyggðin glímir við núna. Hvenær megum við eiga von á útfærslu þessarar ríkisstjórnar? Það er það sem ég sakna enn þá. Það er eins og það eigi að færa þetta fram í einhverjum smáskömmtum og hér erum við að tala um, ég myndi kalla þetta minni háttar tæknilega útfærslu. Þetta er vissulega gjaldfrestur á 22 milljörðum en þetta veitir ekki fyrirtækjunum neina sýn inn í árið. Þetta er til gjalda ásamt gjöldum aprílmánaðar að óbreyttu eftir mánuð. Það er fyrsta spurningin: Hvenær ætlar ríkisstjórnin að kynna aðgerðapakka sinn í þessum málum? Ég vona að það verði bara strax eftir helgi.

Í öðru lagi hvað þetta sérstaka mál varðar, af því að við höfum talað um það í þessum sal að við þessar kringumstæður, jafn mikla óvissu og við er að etja, sé betra að ganga lengra en skemur, hvort ekki sé óhætt að ganga aðeins lengra í þessu máli, t.d. með því að það sé aðeins þriðjungur eða fjórðungur og geti jafnvel verið að einhverju leyti valkvætt sem væri til greiðslu eftir helgina. Það er alveg ljóst að það er fjöldi fyrirtækja í mjög þungri stöðu við þessar kringumstæður.