151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

störf þingsins.

[13:14]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir með öðrum þingmönnum sem hér hafa stigið upp í ræðustól Alþingis í dag og lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðunni sem nú er uppi í fjölgun Covid-smita í samfélaginu. Það eru ekki bara við þingmenn sem höfum áhyggjur af því. Þjóðin öll hlýtur að hafa miklar áhyggjur af hröðu nýgengni smita og sér í lagi meðal barna og unglinga. Ríkisstjórn fundar nú, herra forseti, á neyðarfundi vegna stöðunnar sem upp er komin. Það er von á tillögum frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni um hugsanlega hertar aðgerðir innan lands vegna kórónuveirufaraldursins sem ríkisstjórnin mun taka fyrir til umfjöllunar og kynna nánar á blaðamannafundi eftir hádegi.

Herra forseti. Ég hvet stjórnvöld, ég hvet ríkisstjórn Íslands til þess að víkja ekki frá ráðleggingum sóttvarnalæknis eins og gert var hér á mánudaginn í síðustu viku heldur halda áfram að hlýða á okkar færustu sérfræðinga og hlýða áfram sóttvarnalækni og þeim ráðleggingum sem þaðan koma og ekki hlusta heldur á raddir sem koma úr ákveðnum armi Sjálfstæðisflokksins um að hér eigi að slaka á öllu. Núna er einfaldlega ekki tíminn til þess, herra forseti. Við hljótum að þurfa að taka upp afdráttarlausari aðgerðir til þess að koma í veg fyrir enn frekari fjölgun smita. Talandi um að ESB hafi klikkað í bóluefnadreifingu og okkur hefði verið betur borgið við að gera samninga við Bretland eða Rússlandi eða Kína eða hverjir það eru — þvílík endemis vitleysa, herra forseti. Það vill svo til að Bretland gerði samninga við eigið lyfjafyrirtæki og það er ástæðan fyrir því af hverju búið er að bólusetja svo marga í Bretlandi. Þar (Forseti hringir.) spilar inn í þjóðernishyggja en ekki alþjóðasamstarf og alþjóðahyggja eins og hjá Evrópusambandinu.

Herra forseti. Við bíðum öll í ofvæni eftir blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar og vonandi verða góð tíðindi sem koma af þeim fundi.